Erlent

Þjónustu­fólk Hin­riks prins meðal fárra gesta við út­för hans

Heimir Már Pétursson skrifar

Einungis konungsfjölskyldan, aðrir ættingjar, vinir og samstarfsfólk var viðstatt látlausa útför Hinriks prins eiginmanns Margrétar Danadrottningar í dag.



Hinrik prins hafði sjálfur óskað eftir því að útför hans yrði látlaus en um 60 manns var boðið til hennar. Öllum kirkjuklukkum í Danmörku var hringt áður en athöfnin hófst og að henni lokinni.



Margrét Þórhildur drottning systur hennar tvær, synir hennar, eiginkonur þeirra og börn mættu til útfararinnar í eðalbílum drottningar.  Athygli vakti að Alexandra fyrrverandi eiginkona Jóakims prins mætti einnig. Þá voru bræður og systur Hinriks komin frá Frakklandi til að vera við útförina.



Fulltrúar hins opinbera voru Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra og Pia Kjærsgaardt forseti þingsins ásamt Thomas Rørdam forseta Hæstaréttar. Sendiherra Frakklands í Danmörku François Zimeray var einnig við útförina.



Danskir fréttaskýrendur sögðu það mjög í anda Hinriks að þjónustufólk hans var meðal gesta. Meðal annarra Anker Andersen sem var herbergisþjónn Hinriks í fjörtíu ár og var honum mikil stoð og stytta þegar hann kom fyrst til Danmerkur.



Erik Norman Svendsen sérlegur prestur konungsfjölskyldunnar þjónaði fyrir altari í útförinni og fór með minningarorð um prinsinn. Hann hafi alla tíð þjónað Margréti drottningu í embætti,  en heima í höllinni hafi hann verið húsbóndinn sem stjórnaði uppeldi sonanna og húshaldinu. Prinsinn hafi kynnt franskar hefðir fyrir Dönum og hengt hatt sinn þar sem honum hentaði.



Hinrik hafi verið listamaður, spilað á píanó, samið ljóð, gert höggmyndir og gefið út matreiðslubækur. En saman hafi drottningin og hann þýtt skáldsögu Simone  De Beauvoir, „Allir menn eru dauðlegir“ yfir á dönsku.



Kista prinsins var borin úr kirkju af lífvarðarsveit drottningar og hermenn stóðu heiðursvörð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×