Matvöruverslunin Kostur, sem hætti rekstri í desember síðastliðnum, hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Arnar Þór Stefánsson, hæstaréttarlögmaður á LEX, var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu í síðustu viku.
„Nú tekur við hefðbundið ferli. Fyrstu athuganir skiptastjóra lúta að færslum sem áttu sér stað í aðdraganda þrots. Síðan var gengið á vettvang og húsnæðið kannað en það var búið að rýma það að öllu leyti. Fram undan er meðal annars skýrslutaka af fyrirsvarsmanni og frekari gagnaöflun,“ segir Arnar Þór í samtali við Markaðinn.
Fram hefur komið að fyrrverandi starfsmenn telja sig eiga inni laun hjá versluninni. Auk þess skuldaði verslunin leigu vegna húsnæðis. Arnar Þór segir að umfang krafna eigi eftir að koma í ljós þegar tveggja mánaða kröfulýsingarfrestur rennur út. Verslun Kosts í Kópavogi var lokað 12. desember eftir ríflega átta ára rekstur, en Jón Gerald Sullenberger, eigandi verslunarinnar, sagði þá að koma Costco til landsins hefði kippt grundvellinum undan rekstrinum.
