Körfubolti

„Ég er næsti Martin Hermannsson“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martin átti enn einn stórleikinn í íslenska landsliðsbúningnum
Martin átti enn einn stórleikinn í íslenska landsliðsbúningnum vísir/bára
Martin Hermannsson var mjög sáttur eftir eins stigs sigur Íslands á Tékkum í undankeppni HM 2019 í körfubolta. Íslenska liðið hafði verið yfir með 14 stigum þegar fimm mínútur lifðu af leiknum en töpuðu forystunni niður í eitt stig.

„Þetta var sannarlega hörku leikur. Við þurfum eiginlega að finna eitthvað nýtt og stærra lýsingarorð yfir það. Þetta var hrikalega gaman og það er búið að vera hrikalega gaman að spila núna um helgina með þessum strákum. Þú kveður ekki Loga á betri hátt en þetta,“ sagði Martin eftir leikinn, en leikirnir tveir um helgina voru kveðjuleikir Loga Gunnarssonar með landsliðinu.

Eins og áður segir misstu strákarnir niður forskot undir lok leiksins og var spennan orðin gríðarleg undir lokin. Flest allir í Laugardalshöllinni voru á nálum, en hvernig leið leikmönnunum?

„Það var ekkert stress maður, allir voða rólegir,“ sagði Martin glottandi, en viðurkenndi þó að svo var ekki. „Nei, auðvitað vorum við stressaðir, maður var smá pirraður að hafa ekki klárað leikinn fyrr og gert aðeins betur í lokin.“

„Við erum orðnir það góðir að við erum yfirleitt í stöðu til að vinna í lok leikja og við þurfum bara að læra betur að loka leikjunum og gera út um þá fyrr. En sigur er sigur og hann er ennþá sætari svona.“

„Við vorum mjög góðir, sérstaklega varnarlega. Höldum Tékkum í 75 stigum og Finnum í einhverju svipuðu, og það er eitthvað sem hefur einkennt okkur, brjálaður varnarleikur og að keyra í bakið á þeim. Við hefðum átt að fara yfir 80 stiga múrinn í dag, við skoruðum ekki síðustu mínúturnar, þannig að þetta hefði ekki átt að vera svona tæpt.“

Martin átti enn einu sinni stórleik í íslenska liðinu, hann var með 26 stig og 3 stoðsendingar. Er hann hinn næsti Jón Arnór Stefánsson, besti körfuboltamaður í sögu íslensks körfubolta?

„Ég er næsti Martin Hermannsson,“ sagði Martin kátur í bragði. „Mér leið vel um helgina, lappirnar reyndar alveg búnar á því núna. Ég væri alveg til í að vera hinn nýi Jón Arnór, það er alls ekki leiðum að líkjast.“

Sigurinn skiptir miklu máli í riðlinum, en Tékkland hafði ekki tapað leik til þessa. Ísland hélt sér í öðru sæti, jafnir á stigum og Finnar og einu stigi á eftir Tékkum.

„Þetta sprengir allt upp. Búlgaríutapið svíður svolítið ennþá, hefði verið frábært ef við hefðum tekið þann leik. En við bara höldum áfram og eigum tvo leiki eftir í þessum riðli.“

Martin sagði ekkert annað koma til greina en að hefna tapsins úti í Búlgaríu.

„Ég vona að þjóðin sé orðin jákvæð núna aftur, allir brosandi að hafa gaman og lifa og njóta,“ sagði Martin Hermannsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×