Mette Bock, menningarmálaráðherra Danmerkur, sakar í dag Dani um hræsni þegar þeir hylla prinsinn að honum gengnum, en stríddu og hæddust að honum þegar hann var í lifanda lífi.
„Franski Henri varð aldrei algerlega danski Henrik, þó að við höfum neytt hann til að skipta um nafn. Nú er maðurinn látinn. Og eineltisseggirnir birta nú minningargreinar um þessa stórkostlegu manneskju sem var spennandi, öðruvísi, fjörlegur og fullkomlega hann sjálfur. Hræsnin ætlar engan endi að taka,“ segir Bock á Facebook-síðu sinni.
Bock fær bæði lof og last í athugasemdakerfinu, en hún segist í samtali við BT ekki ætla að tjá sig frekar um málið. Bock er einn af fulltrúum Frjálslynda bandalagsins (Liberal Alliance) í ríkisstjórn Danmerkur.
Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, andaðist í gærkvöldi, 83 ára að aldri. Hann var þekktur fyrir að vera óhræddur að segja sína skoðun. Þannig var mikið fjallað um að prinsinn hafi átt í vandræðum með að aðlaga sig tignarröðinni innan danska konungsveldisins og að hann hafi margoft gagnrýnt að hann væri ekki með sömu stöðu og drottningin.