Erlent

Leiðtogar úr austri og vestri hittast í München

Atli Ísleifsson skrifar
Öryggismálaráðstefnan í München er haldin á hótelinu Bayerischer Hof.
Öryggismálaráðstefnan í München er haldin á hótelinu Bayerischer Hof. Vísir/AFP
Hin árlega öryggismálaráðstefna í München verður sífellt mikilvægari vettvangur sem óformlegur fundarstaður leiðtoga úr austri og vestri. Ráðstefnan hófst á hótelinu Bayerischer Hof í morgun og stendur fram á sunnudag.

Fjölmargir fundir eru fyrirhugaðir á ráðstefnunni, þar sem vitað er að rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov mun meðal annars ræða við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun einnig sækja ráðstefnuna. Sömu sögu er að segja af Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, utanríkisráðherra Írans og Sádi-Arabíu, forsætisráðherra Austurríkis og Ísraels og þannig mætti áfram telja.

Brexit-ræða May

Ein af þeim ræðum sem beðið er eftir með hvað mestri eftirvæntingu er Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, á morgun þar sem hún mun ræða Brexit og öryggismál.

Reikna má með samtölum um ástandið í Sýrlandi og Írak og þá er vonast til að hægt verði að ræða ástandið í Úkraínu með háttsettum leiðtogum rússneskra, þýskra og franskra stjórnvalda.

Skýrsla Fogh um Úkraínu

Talsmaður Rússlandsstjórnar hefur þegar sagt Lavrov vera reiðubúinn til að ræða ástandið í austurhluta Úkraínu sem hefur verið eldfimt síðustu árin.

Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti er einnig á staðnum í München, en þar verður til umræðu skýrsla Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, um möguleikann á að senda alþjóðlegar friðargæslusveitir til austurhluta Úkraínu til að halda friðinn.

Opinber dagskrá fundarins einblínir sérstaklega á hlutverk ESB í alþjóðasamfélaginu og samskipti þess við Bandaríkin og Rússland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×