Umfjöllun og viðtöl: FH - Valur 31-30 │ Óðinn Þór tryggði FH lygilegan sigur með flautumarki

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson í fyrri leik liðanna í vetur
Óðinn Þór Ríkharðsson í fyrri leik liðanna í vetur Vísir/Anton
Óðinn Þór Ríkharðsson var hetja FH með marki á lokasekúndu leiksins gegn Val, en það var 31. mark FH. Valur skoraði 30 og FH stóð því uppi sem sigurvegari.

Fyrri hálfleikurinn var líklega einn sá allra hraðasti sem sést hefur í Olís-deildinni á þessu tímabili. Eftir aðeins tíu mínútna leik höfðu liðin skorað 14 mörk og var staðan þá 8-6 fyrir Val.

Á þessum tímapunkti komu markverðir liðanna ekki mikið við sögu og fóru nánast öll skot inn. Þegar leið á hálfleikinn fóru þeir aftur á  móti að verja betur og var fyrri hálfleikurinn spennandi. Mjög umdeilt atvik átti sér stað á 27. mínútu en þá fékk Orri Freyr Gíslason, leikmaður Vals, beint rautt spjald fyrir að brjóta á Einari Rafni Eiðssyni en Orri átti að hafa farið beint í andlitið á Einari. Valsmenn vægast sagt óánægðir með dóminn. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 17-15 fyrir Valsmönnum.

Í síðari hálfleik var í raun það sama upp á teningnum og mikið jafnræði var á með liðunum. Valsmenn alltaf 1-2 skrefum á undan FH en heimamenn gáfust aldrei upp. Þegar hálf mínúta var eftir var staðan 30-30 og FH-ingar í sókn.

Ísak Rafnsson náði skoti á markið, en Einar Baldvin Baldvinsson varði í marki Vals. Óðinn Þór Ríkharðsson náði frákastinu í horninu og skoraði sigurmarkið um leið og flautan gall. Ótrúlegt atvik og í annað sinn sem Óðinn nær að skora flautumark fyrir FH á tímabilinu.



Af hverju vann FH ?


Liðið gafst bara aldrei upp og vildi allan tímann sækja stigin tvö. Valsmenn voru lengi vel með tök á leiknum, en það bara dugði ekki til. Valsmenn köstuðu í raun sigrinum frá sér undir lok leiksins, þrátt fyrir að hafa spilað nokkuð vel í 57 mínútur.



Hverjir stóðu upp úr?


Einar Rafn Eiðsson skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld og Magnús Óli Magnússon var með sex fyrir Valsmenn. Alexander Júlíusson var einnig flottur í liði Vals með fimm mörk og öflugur í vörn. Markaskorið dreifðist vel hjá FH-liðinu og sást vel að liðið er með mikla breidd.



Hvað gekk illa?


Ákvörðunartökur Valsmanna voru ekki góðar undir lokin. Eitthvað sem leikmenn liðsins höfðu gert gríðarlega vel allan leikinn. Gestirnir hefðu þurft að vera örlítið rólegri og vera ákveðnir í því að ná fráköstum, þar sem FH-ingar misnotuðu nokkur skot undir lokin en fengu alltaf annan séns.



Hvað er framundan?

Mikil barátta hjá báðum liðum. Valsmenn vilja væntanlega reyna komast í efri hlutann á Olís-deildinni fyrir úrslitakeppnina og FH ætlar sér að sækja þennan deildarmeistaratitil.

Óðinn: Klárlega með segul í höndunum
Óðinn Þór Ríkharðsson átti góðan leik í kvöld.Vísir/Anton
„Við náum að spila okkur í yfirtölu og ég er í raun bara heppinn að boltinn hrökkvi til mín eftir frákast,“ segir hetja FH, eftir sigurinn í kvöld.

„Það er klárlega segull í höndunum á mér,“ sagði Óðinn en hann tryggði einmitt FH sigur gegn Haukum eftirminnilega í vetur, og það með flautumarki.

„Þetta var ógeðslega mikilvægur sigur og gott að komast aftur á sigurbraut eftir tvö lélega leiki í röð hjá okkur. Það var því ótrúlega góð tilfinning að fá loksins tvö stig.“

Óðinn segir að heilt yfir hafi FH liðið ekki verið gott í leiknum í kvöld.

„Í raun vorum við samt miklu betri en í síðustu tveimur og það er jákvætt, þar sem við höfum verið slappir upp á síðkastið.“

Hann var ánægður með mætinguna í Kaplakrika í kvöld.

„Það er alltaf  frábær mæting í Krikann og það var mjög gaman að spila þennan leik. Við ætlum núna að komast á beinu brautina fyrir úrslitakeppnina og toppa á réttum tíma.“

Guðlaugur: Ég verð að treysta þeim fyrir þessu
Guðlaugur var flottur á bekknum í kvöld.vísir/ernir
„Ég er vægast sagt svekktur með þessa niðurstöðu,“ segir Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari Vals, eftir tapið.

„Mér fannst við leggja nægilega mikið í þennan leik til þess að eiga skilið að vinna. Heilt yfir spilum við vel í kvöld en náum samt sem áður að tapa leiknum. Við töpum á litlu atriðunum og það voru fráköstin.“

Hann segist hafa gengið beint á dómara leiksins undir lokin og spurt þá út í sigurmark Óðins.

„Þeir stóðu fastir á því að þetta væri löglegt mark og það verður fróðlegt að sjá þetta í kvöld. Ég treysti þeim samt fyrir þessu.“

Guðlaugur segir að Valsliðið sé í raun búið að vera á ágætu róli að undanförnu og liðið sé jafnt og þétt að bæta sig. Valsmenn höfnuðu í sjöunda sæti Olís-deildarinnar en enduðu sem Íslandsmeistarar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira