Erlent

„Sársaukafullt“ þegar vegið var að starfsheiðrinum með ásökunum um kynferðislega áreitni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ryan Seacrest við störf í hinni gríðarvinsælu sjónvarpsþáttaröð American Idol.
Ryan Seacrest við störf í hinni gríðarvinsælu sjónvarpsþáttaröð American Idol. Vísir/Getty

Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Ryan Seacrest segir það hafa verið afar sársaukafullt að þurfa að sitja undir ásökunum um að hafa áreitt konu kynferðislega. Hann segir jafnframt mikilvægt að allir hlutaðeigandi í málum, sem nú koma upp á yfirborðið í kjölfer #MeToo-byltingarinnar, fái sanngjarna málsmeðferð.

Seacrest, sem þekktastur er fyrir starf sitt sem kynnir bandarísku raunveruleikaþáttanna American Idol, er einn fjölmargra karlmanna í Hollywood sem sakaður var um kynferðislega áreitni og –ofbeldi á síðasta ári. Áður en ásakanirnar á hendur Seacrest litu dagsins ljós sendi hann þó frá sér yfirlýsingu þar sem hann þvertók fyrir þær.

Fullviss um að ekkert væri hæft í ásökununum

Í yfirlýsingunni í nóvember sagði Seacrest stílista, sem starfaði með honum hjá sjónvarpsstöðinni E! News fyrir tíu árum, hafa stigið fram og sakað hann um ósæmilega kynferðislega hegðun þegar þau unnu saman. Eins og áður sagði hafnaði Seacrest ásökununum, sagði þær „gálausar“ og að hann myndi vera samvinnuþýður hverjum þeim sem færi með rannsókn málsins.

Seacrest tjáði sig aftur um málið í pistli sem birtist á vef The Hollywood Reporter eftir að E! News komst formlega að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í ásökunum konunnar. Í pistlinum, sem ber titilinn What happened after I was wrongly accused of harassment, segir Seacrest frá tímabilinu í lífi sínu sem tók við eftir að ásakanirnar voru gerðar opinberar.

„Það var sársaukafullt þegar vegið var að starfsheiðri mínum. Ég hef alltaf reynt að koma fram við alla samstarfsfélaga mína með heiðarleika, virðingu og góðmennsku að leiðarljósi,“ skrifar Seacrest sem segist þó alltaf hafa verið þess fullviss að ekkert væri hæft í ásökununum.

Mikilvægt að allir fái séns

Í pistli sínum lagði Seacrest þó áherslu á að hann væri stuðningsmaður #MeToo-byltingarinnar og fór fögrum orðum um hinar hugrökku konur sem hafa stigið fram og sagt frá kerfisbundnu kynjamisrétti sem viðgengst hefur í Hollywood.

„Ég vil taka þátt í breytingunum, framförunum, sem eru á sjóndeildarhringnum,“ segir Seacrest.

Hann lagði þó áherslu á að mikilvægt væri að allir, „almenningur, einkareknar og opinberar stofnanir, kærendur og stefndir,“ eigi möguleika á sanngjarnri málsmeðferð.

#MeToo-byltingin hefur farið hátt í fjölmiðlum og samfélaginu öllu síðan fjölmargar konur stigu fram og sökuðu kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og –ofbeldi í október í fyrra. Síðan þá hafa fleiri karlmenn verið sakaðir um sambærilega hegðun, og enn aðrir hafa fundið sig knúna til að koma starfsbræðrum sínum, sem liggja undir grun, til varnar. Þar á meðal eru leikararnir Liam Neeson og Alec Baldwin.


Tengdar fréttir

Tarantino svarar fyrir sig

„Ég neyddi hana ekki í bílinn. Hún gerði þetta því hún treysti mér og hún trúði mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×