Verkfræðingar egypska hersins og verktakar sáu um að flytja styttuna fjögur hundruð metra leið úr geymslu á safnið. Egypsk yfirvöld vonast til þess að styttan hjálpi til við að blása lífi í ferðamannaiðnaðinn í landinu sem hefur liðið fyrir pólitískan óstöðugleika og ofbeldi undanfarin ár, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Ramses annar verður fyrsti gripurinn sem blasir við gestum nýja safnsins. Það opnar ekki formlega fyrr en árið 2022 en hlutar þess verða opnaðir síðar á þessu ári.
Styttan fannst í fornleifauppgreftri í Mit Rahina árið 1820. Árið 1955 var styttan flutt á torg sem kennt er við konunginn í Kaíró. Þar lék vaxandi mengun og umferð styttuna grátt sem leiddi til þess að henni var komið fyrir í geymslu árið 2006, að því er segir í frétt Reuters.
Ramses ríkti í Egyptalandi til forna frá 1279 til 1213 fyrir krist. Hann var grafinn í Dal konunganna. Lík hans er til sýnis á safni í Kaíró.