Erlent

Demókratar vilja koma hlífðarskildi yfir Mueller

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Mueller, sérstakur saksóknari.
Robert Mueller, sérstakur saksóknari. Vísir/EPA
Þingmenn Demókrataflokksins vilja að þingið komi í veg fyrir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, geti vikið Robert Mueller, sérstökum saksóknara, úr starfi sínu og bundið enda á Rússarannsóknina svokölluðu. Það vilja þeir gera eftir að í ljós kom að Trump ætlaði sér að reka Mueller í júní í fyrra. Lögmenn og ráðgjafar Trump komu í veg fyrir að hann gerði það.

Æðsti lögmaður Hvíta hússins hótaði að segja starfi sínu lausu ef það skref yrði tekið.

Sjá einnig: Trump ætlaði að reka Mueller



Þrátt fyrir áköll Demókrata og eins Repúblikana hafa leiðtogar Repúblikanaflokksins þó lítinn áhuga að binda hendur Trump. Samkvæmt frétt Washington Post segja þeir að hótanir forsetans hafi verið einangraðar og séu í fortíðinni. Ekkert tilefni sé til aðgerða.



Charles E. Grassley, formaður dómsmálanefndar öldungadeildarinnar, segir að ef fregnirnar séu réttar sýni þær fram á að forsetinn hafi hlustað á góð ráð frá ráðgjöfum sínum.

„Miðað við yfirlýsingar hans síðustu vikurnar eru hann og lögmenn hans að starfa með Mueller,“ sagði Grassley og vísaði þar til Trump.



Demókratar eru þó ekki sammála og saka Repúblikana um að taka þátt í tilraunum til þess að grafa undan trúverðugleika Mueller og Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Þær árásir hafa færst verulega í aukana að undanförnu.

Sjá einnig: Árásum íhaldsmanna á FBI fjölgar



„Repúblikanar hafa sagt okkur í marga mánuði að það komi ekki til greina að Trump myndi reka Mueller og því þyrftum við ekki að koma hlífðarskildi yfir sérstaka saksóknarann. Hver er afsökunin þeirra núna?“ sagði aðstoðarmaður öldungadeildarþingmanns Demókrataflokksins við Politco.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×