Nora Mörk sakaði norska handboltasambandið um aðgerðaleysi þegar leikmenn karlalandsliðsins voru staðnir að því að dreifa viðkvæmum myndum af henni á milli sín. Nú fá forystumenn sambandsins loksins tækifæri til að segja sína hlið á málinu þegar þeir heimsækja leikmanninn til Ungverjalands.
Viðkvæmum myndum af Noru Mörk var stolið af síma hennar síðasta haust og í framhaldi flæddu þær um veraldarvefinn. Hún kom fram og sagði heiminum frá og snéri vörn í sókn. Mörk hefur kært fjölda manna fyrir að dreifa myndinum en annað áfall kom síðan í nóvember þegar hún frétti af myndinum inn í búningklefa karlalandsliðsins.
Nora fordæmdi þá aðgerðaleysi norska handboltasambandsins sem hún taldi ekki sinna sínum skyldum í málinu. Málið kom upp í miðri Evrópukeppni karlalandsliðsins og vakti mikla athygli hér sem annarsstaðar.
Síðan þá höfðu Nora Mörk og forystumenn norska handboltasambandsins ekkert rætt saman. TV2 segir frá því að nú sé eitthvað að gerast í málinu. Norska handboltakonan hefur nefnilega samþykkt að hitta formann norska handboltasambandsins og deiluaðilar eru því loksins farnir að tala saman.
Það leit út fyrir að Þórir Hergeirsson væri að missa sinn besta leikmann úr landsliðinu enda sagði Nora Mörk að hún ætlaði að hætta í landsliðinu út af þessu máli. Nora Mörk var markahæsti leikmaður í síðasta heimsmeistaramóti þar sem norska liðið vann silfur. Nora var einnig valin í úrvalsliðið á sínu fjórða HM eða EM í röð.
Kåre Geir Lio, formaður norska sambandsins, hefur nú sannfært Noru um að hitta sig í Ungverjalandi þar sem hún spilar sem atvinnumaður með liði Györ. Fundurinn fer fram í febrúar og markmið Lio er að fá Noru Mörk til að gefa áfram kost á sér í norska landsliðið.
Handbolti