Leikurinn í kvöld verður fyrsti bikarleikur karlaliðs Hauka í Laugardalshöllinni í 22 ár eða síðan 28. janúar 1996 þegar liðið vann 85-58 sigur á ÍA í sögulegum bikarúrslitaleik.
Það má segja að myrkrið hafi stolið senunni í þessum leik í lok janúar fyrir 22 árum síðan. Glæsilega leikmannakynningin fyrir leik varð nefnilega ansi dýrkeypt.
Hálftíma fyrir leik voru aðlljósin slökkt en ætlunin var að lýsa bara upp völlinn með sérstökum ljósum. Þau virkuðu ekki og leikmenn hituðu upp í 40 mínútur í myrkri.
Leikmenn voru engu að síður kynntir til leiks en sú kynning tókst ekki vel og var meðal annars kvartað mikið yfir hræðilegri tónlist.

Skagamenn sáu aldrei til sólar í leiknum, kenndu töfinni um og Haukarnir unnu öruggan sigur. Ljósin hafa ekki verið slökkt í Laugardalshöllinni síðan og það má ekki búast við því að menn taki upp á því í kvöld.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í dag, var leikmaður liðsins fyrir 22 árum en hann skoraði fjórtán stig í úrslitaleiknum og var þriðji stigahæsti leikmaður Hauka.
Fyrirliði liðsins í þessum leik var Jón Arnar Ingvarsson en sonur Jóns, Kári, verður í stóru hlutverki í Haukaliðinu í kvöld.