Íslenska handboltalandsliðið losnaði undan Svíagrýlunni í umspilinu um sæti á HM fyrir rúmum áratug en strákarnir okkar eiga enn eftir að afreka eitt á móti sænska landsliðinu.
Íslensku strákarnir hafa aldrei byrjað stórmót á sigri á sænska landsliðinu. Strákarnir okkar hefja leik á EM í Króatíu í dag þegar liðið mætir einmitt Svíþjóð í fyrsta leik.
Þetta verður í sjötta sinn sem íslenska landsliðið hefur stórmót á leik á móti Svíum en í öll hin fimm skiptin hafa Svíar haft betur. Fyrsti opnunarleikurinn á móti Svíum var á HM í Svíþjóð fyrir tæpum 25 árum.
Svíar hafa unnið þessa fimm leiki með samtals 29 mörkum eða með 5,8 mörkum að meðaltali í leik. Minnsta tapið var þriggja marka tap á HM í Frakklandi 2001 en í hin fjögur skiptin hafa Svíar unnið með fimm mörkum eða meira.
Það sem meira er að íslenska landsliðið hefur lent á vegg í flestum þessara leikja og er aðeins með 19 mörk að meðaltali í þeim.
Evrópumótið fór síðast fram í Króatíu fyrir átján árum síðan og þá mættust einmitt Íslendingar og Svíar í fyrsta leik. Svíar unnu þá átta marka sigur en í þeim leik var Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska liðsins í dag, með í för en utan hóps í þessum fyrsta leik.
Leikir á móti Svíum í fyrsta leik á stórmótum:
HM í Svíþjóð 1993
5 marka tap (16-21)
EM í Króatíu 2000
8 marka tap (23-31)
HM í Frakklandi 2001
3 marka tap (21-24)
EM í Noregi 2008
5 marka tap (19-24)
HM í Katar 2015
8 marka tap (16-24)
