Flugeldasalan í ár gekk ágætlega að sögn Smára Sigurðssonar, formanns Landsbjargar, og voru flestar sveitir að selja svipað magn og í fyrra. Salan dróst hins vegar saman hjá sumum sveitum og telur Smári að heildarflugeldasalan í ár gæti því verið minni en í fyrra. Salan var nokkuð mismunandi eftir landshlutum og þá minni sums staðar í dreifbýlinu.
„Þetta er svona meira úti í dreifbýlinu sem kemur einn og einn staður sem hefur selt verulega minna. Það er reyndar á ansi mörgum stöðum, hjá mörgum björgunarsveitum sem eru í litlu samfélagi, þar er sáralítil sala.“
Smári segir flugeldasöluna ganga upp og niður milli ára en telur að ýmis ytri skilyrði hefðu átt að veita henni meðbyr á þessu ári. „Nú var veðrið gott. Við fengum að vísu þessa umræðu um mengun sem truflaði svolítið og svo höfum við mjög virka samkeppni víða í flugeldum. Það stækkar ekkert flugeldamarkaðinn að hafa fleiri til að selja.“

Yfir helmingur sölunnar fer yfirleitt fram á gamlársdag en Smári segir söluna hafa farið heldur hægt af stað í gær. Mögulega hafi það haft áhrif að gamlársdagur lenti á sunnudegi.
„Eins og í gær var svolítið sérstakt, allavega í mínu hverfi, minni björgunarsveit, þá gerðist ekki neitt fyrr en um hádegi. Þannig að þetta var ansi snarpur sprettur frá hádegi og fram að lokun, sem oftar en ekki dreifist á allan þennan dag. En það var margt óvenjulegt við söluna hjá okkur í ár, bæði seinni partinn á laugardaginn og á sunnudaginn,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Landsbjargar.