Innlent

„Mikil fíkniefnalykt“ mætti lögreglumönnunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það var í Hafnarfirði sem lögreglumenn nánast gengu á lyktina.
Það var í Hafnarfirði sem lögreglumenn nánast gengu á lyktina. Vísir/Valgarður
Lögreglan var send að Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði í nótt vegna mikils hávaða sem hélt vöku fyrir nágrönnum. Þegar húsráðandi opnaði fyrir lögreglunni á öðrum tímanum er „mikil fíkniefnalykt“ sögð hafa tekið á móti lögreglumönnunum sem knúðu dyra. Þeir ræddu við húsráðanda sem á að hafa framvísað „lítilræði“ af fíkniefnum og leyft lögreglumönnunum að svipast um í íbúðinni. Ekki fylgir sögunni hversu margir voru staddir í teitinu, hvort leit lögreglunnar hafi borið einhvern árangur eða hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins.

Í miðborg Reykjavíkur var karlmaður stöðvaður sem ráfað hafði um í annarlegu ástandi. Er hann grunaður um að hafa skemmt nokkrar bifreiðir sem á vegi hans urðu og talið er að hann hafi reynt að komast inn í nokkrar þeirra. Hann var handtekinn á bílastæði við Sturlugötu og hefur fengið að dúsa í fangageymslu í nótt.

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna, og þá greinir lögreglan jafnframt frá flugeldaslysinu við Esjurætur í skeyti sínu nú í morgun. Vísir sagði frá slysinu í gærkvöldi en nokkur ungmenni slösuðust lítillega. Eitt þeirra mun þó hafa fengið stórt flugeldabrak í gagnaugað og misst meðvitund um tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×