Innlent

Að meðaltali 58 heimilisofbeldismál á mánuði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Ernir
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að töluvert hafi verið gert af umbótum og skipulagsbreytingum á kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Sigríður hélt erindi á ráðstefnunni Þögnin, skömmin og kerfið sem fer fram í Háskólanum í Reykjavík í dag.

„Eitt af því sem við höfum gert er að þetta er nú yfirlýstur áherslumálaflokkur,“ sem Sigríður segir að geri málaflokkinn áberandi innanhúss. Markviss þjálfun og fræðsla hafi verið í deildinni og rannsóknarlögreglumönnum fjölgað.

„Stærsta breytingin var að fækka málategundum í deildinni. Í deildinni áður, þó að hún héti kynferðisbrotadeild, þá voru til dæmis manndráp rannsökuð í deildinni. Þið getið ímyndað ykkur, það eru stærstu málin okkar, það voru fjögur á þessu ári.“

Segir Sigríður að ef að starfsfólk kynferðisbrotadeildar hefði verið að rannsaka þessi mál þá hefðu öll önnur mál beðið á meðan.

„Heimilisofbeldismál voru líka rannsökuð í þessari deild, en þá voru þau um það bil 20 á mánuði. Núna eru þau 58 að meðaltali á mánuði.“

Þessi mál eru nú á öðrum stað í starfseminni til þess að létta á kynferðisbrotadeildinni. Einnig sé búið að horfa meira á þverfaglegt samstarf en áður.

„Sári sannleikurinn í þessu máli er sá að það eru margfalt fleiri sem að leita til Neyðarmóttöku heldur en þeir sem leita til lögreglu og þú ferð ekki til Neyðarmóttöku nema að þú teljir þig hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“ Sigríður segir að þetta sé gjá sem þurfi að brúa.  

„Við teljum að þverfaglegt samstarf sé algjör lykill í því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×