Brak fyrsta kafbáts ástralska hersins er loks fundið á hafsbotni, 103 árum eftir að báturinn sökk í fyrri heimsstyrjöldinni.
Kafbáturinn, HMAS AE-1, var fyrsti kafbátur bandamanna í fyrri heimsstyrjöldinni sem sökk , þann 14. september 1914. Báturinn fannst undan strönd Rabaul á Papúa Nýju-Gíneu, en í honum voru 35 breskir og ástralskir áhafnarmeðlimir.
Alls hafa þrettán leiðangrar verið gerðir út til að leita að brakinu, en lengi hefur verið velt vöngum yfir hver örlög kafbátsins hafi verið.
Marise Payne, varnarmálaráðherra Ástralíu, segir fundinn einn þann merkasta í siglingasögu Ástralíu.
Leitarmenn notuðust við sérstakan neðansjávardróna sem kafaði um fjörutíu metrum frá hafsbotni í leit að bátnum. Hann fannst loks á um þrjú hundruð metra dýpi.
Ekki eru áætlanir um að ná bátnum upp af hafsbotni að svo stöddu, en til stendur að rannsaka hvað hafi orðið til þess að hann sökk.
Erlent