Innlent

Kristján Þór segir frá styrkjum og launum hjá Samherja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Þór hefur gegnt stöðu bæjarstjóra á Dalvík, Akureyri og Ísafirði.
Kristján Þór hefur gegnt stöðu bæjarstjóra á Dalvík, Akureyri og Ísafirði. Vísir/Stefán
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist munu meta hæfi sitt sérstaklega ef upp komi mál í hans embættistíð sem snerti Samherja. Hann var stjórnarmaður í fimm ár hjá fyrirtækinu og hefur í tvígang þegið fjárhagslegan styrk frá Samherja í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins.

Þá virðist ráðherrann og skipstjórinn fyrrverandi hafa hitt á góða túra sem háseti hjá Samherja í seinni tíð. Hann fór í tvo slíka, sumarið 2010 og aftur 2012 samtals 27 daga. Hásetahluturinn var rúmar þrjár milljónir króna.

Skipstjóri í tæpan áratug

Ráðherrann, sem stendur á sextugu, sér ástæðu til að upplýsa um fyrri störf sín. Líklega í kjölfar umræðu um tengsl hans við sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Samherji er með næstmestan kvóta á landinu á eftir HB Granda.

Kristján Þór kann vel til verka á sjó. Hann var háseti á togurum í fimm sumur á áttunda áratugnum, stýrimaður og skipstjóri í fjögur ár til viðbótar og nokkur sumur. Þá kenndi hann við Stýrimannaskólann á Dalvík í fimm ár á níunda áratugnum.

Hann hefur setið í stjórnum Útgerðafélags Dalvíkinga, Söltunarfélags Davlíkur, Sæplasts, Togaraútgerðar Ísafjarðar og Samherja. Síðastnefnda stjórnarsetan var sú síðasta, frá 1996 til 2000.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja sem á næst mestan kvóta á landinu.vísir/auðunn
Nauðsynlegt að tengsl séu uppi á borðum

„Það er óumflýjanlegt í smáu þjóðfélagi að stjórnmálamenn þekki marga, sérstaklega þegar viðkomandi hafa búið í sama bæjarfélagi eða unnið í sama geira. Þá skiptir mestu að allir sem veita stjórnmálamanninum umboð og aðhald, hvort sem um er að ræða kjósendur, aðra stjórnmálamenn eða fjölmiðla, séu meðvitaðir um tengslin og getið metið og gagnrýnt störf stjórnmálamannsins í því ljósi,“ segir Kristján Þór. 

Það sé bæði nauðsynlegt og sjálfsagt í nútíma lýðræðissamfélagi.

„Í því samhengi er mér ljúft og skylt að upplýsa að við Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, höfum þekkst síðan við vorum ungir menn.“ 

Hann hafi verið stjórnarformaður í eitt og hálft ár hjá Samherja en annars stjórnarmaður þau fimm ár sem hann átti sæti í stjórn, 1996-2000. 

Þrjár milljónir fyrir 27 daga

„Samtals 27 daga, í ágúst 2010 og júlí 2012, fór ég sem háseti á makrílveiðar. Einu launin sem ég hef þegið hjá fyrirtækinu eru fyrir áðurnefnda stjórnarsetu þar sem stjórnarlaun voru tæp 30 þúsund á mánuði og stjórnarformaður fékk tvöföld þau laun. Hásetahluturinn fyrir veiðitúrinn í ágúst 2010 var 1.374.929 kr og í júlí 2012 1.661.800 kr..“

Þá hafi Samherji í tvígang styrkt framboð hans í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins. Um hálfa milljón árið 2007 og 100 þúsund krónur árið 2013.


„Ég tel mig vera hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála.“

Flokksystkinin Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Kristján Þór Júlíusson mæta til fundar í Valhöll á dögunum.Vísir/Vilhelm
Að neðan má sjá erindi Kristjáns Þórs í heild sinni.

Það var sérstaklega ánægjulegt að vera trúað fyrir embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af þingflokki Sjálfstæðisflokksins að tillögu formanns flokksins. Ég þakklátur því trausti.

Ég er fæddur og uppalinn á Dalvík í Eyjafirði. Þar, eins og í flestum sjávarbyggðum landins, hefur útgerð og fiskvinnsla alla tíð verið samofin lífi íbúanna. Eftir að ég tók við embætti hef ég fengið fyrirspurnir um bakgrunn minn í sjávarútvegi. 
Störf mín sem stýrimaður og skipstjóri, kennari við Stýrimannaskólann, ásamt öðrum störfum tengdum sjávarútvegi og sveitarstjórnarmálum tel ég að gefi mér einstaka og djúpa innsýn í þau verkefni sem fyrir höndum eru í ráðuneyti sjávarútvegsmála. Mér finnst því ekki úr vegi að birta hér nokkuð ýtarlegt yfirlit um fyrri störf á þessu sviði og öðrum, allt frá því að ég byrjaði 12 ára að reyna að hjálpa til við netavinnu og steypa sökkur í netagerðinni hjá pabba mínum, en sjómannsferillinn hófst þegar ég var 16 ára.

Háseti á togurum á sumrin 1973–1977


Stýrimaður og skipstjóri 1978–1981 og á sumrin 1981–1985 


Kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981–1986

Hef setið í stjórnum eftirtalinna fyrirtækja sem tengdust sjávarútvegi:


Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. 1987–1990


Söltunarfélag Dalvíkur hf. 1987–1993


Sæplast hf. 1988–1994


Togaraútgerð Ísafjarðar hf. 1996–1997


Samherji hf. 1996–2000

Flestir sem þekkja til starfsemi sveitarfélaga vita að á þeim vettvangi eru mikil samskipti og verkefni er tengjast atvinnulífi viðkomandi sveitarfélaga. Árin 1986–2007 starfaði ég á vettvangi sveitarstjórna landsins.
Á þessum árum öllum voru mér falin mikilvæg trúnaðarstörf þar sem tekist var á við margvísleg úrlausnarefni og þ.m.t. atvinnu og byggðamál. Hér vil ég sérstaklega nefna eftirfarandi:

Bæjarstjóri Dalvíkur 1986–1994


Bæjarstjóri Ísafjarðar 1994–1997


Bæjarstjóri Akureyrar 1998–2006


Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga 1998–2007


Formaður stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga 1994–1997


Héraðsráð Eyjafjarðar 1990–1994


Formaður stjórnar Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1987–1992


Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998–2007


Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands 1999–2008


Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000–2007


Formaður stjórnar Eyþings 1998–2002


Í stjórn Landsvirkjunar 1999–2007


Í Ferðamálaráði Íslands 1999–2003
Í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000–2007

Það er óumflýjanlegt í smáu þjóðfélagi að stjórnmálamenn þekki marga, sérstaklega þegar viðkomandi hafa búið í sama bæjarfélagi eða unnið í sama geira. Þá skiptir mestu að allir sem veita stjórnmálamanninum umboð og aðhald, hvort sem um er að ræða kjósendur, aðra stjórnmálamenn eða fjölmiðla, séu meðvitaðir um tengslin og getið metið og gagnrýnt störf stjórnmálamannsins í því ljósi. Það er bæði nauðsynlegt og sjálfsagt í nútíma lýðræðissamfélagi.

Í því samhengi er mér ljúft og skylt að upplýsa að við Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, höfum þekkst síðan við vorum ungir menn. Fyrir um tuttugu árum (1996–2000) sat ég í stjórn Samherja, þar af sem stjórnarformaður í u.þ.b. eitt og hálft ár. Samtals 27 daga, í ágúst 2010 og júlí 2012, fór ég sem háseti á makrílveiðar. Einu launin sem ég hef þegið hjá fyrirtækinu eru fyrir áðurnefnda stjórnarsetu þar sem stjórnarlaun voru tæp 30 þúsund á mánuði og stjórnarformaður fékk tvöföld þau laun. Hásetahluturinn fyrir veiðitúrinn í ágúst 2010 var 1.374.929 kr og í júlí 2012 1.661.800 kr.. 
Fyrirtækið hefur síðan tvisvar styrkt framboð mitt í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins, 500 þúsund kr. árið 2007 og 100 þúsund kr. árið 2013.

Ég tel mig vera hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×