Skoðun

Bætt heilsugæsla – Brýn nauðsyn

Salóme Ásta Arnardóttir og Oddur Steinarsson skrifar
Átakanlegur skortur á heimilislæknum á Íslandi, ekki síst á landsbyggðinni, hæg endurnýjun á heimilislæknum og fækkun á starfandi læknum samfara auknum verkefnum og álagi er alvarlegur vandi sem þolir enga bið. Brýnt er að styrkja heilsugæsluna án tafar og gera henni betur kleift að standa undir nafni sem fyrsta stigs þjónusta, sem er grunnurinn að bættri velferð almennings um land allt og um leið að skynsamlegri stýringu á fjármunum í heilbrigðiskerfinu.

Efling heilsugæslunnar, sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu eins og sést hefur í hverjum stjórnarsáttmálanum á fætur öðrum, gleður hjörtu heimilislækna. En nú er svo komið að ekki verður undan því vikist að horfast í augu við raunveruleikann. Verkefni bætast við og starfsstéttum fjölgar innan heilsugæslunnar, nú síðast með störfum sálfræðinga, sem vonandi eru komnir til að vera ein af grunnstoðum heilsugæslunnar auk heimilislækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Þó er það svo að flestir koma á heilsugæsluna til að leita sér lækninga og því óhjákvæmilegt að viðhalda mönnun og fjölga heimilislæknum.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins stendur: „Á tímabilinu 2007-16 jukust fjárframlög til hennar einungis um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11%. Á sama tíma jukust útgjöld vegna sérgreinalækninga um 57% að raunvirði vegna aukinnar þjónustu þeirra.“ Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur bent aðildarlöndum í Evrópu á að áhersla á annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari heilbrigðisþjónustu, sé of mikil miðað við áherslur á forvarnir og heilsugæslu. Meginrökin eru að bætt aðgengi almennings að fyrsta stigs þjónustu er mun hagkvæmara fyrir heilbrigðiskerfið í heild.

Eitt stærsta verkefni heimilislækna er eftirlit og meðferð langvinnra veikinda og fjölveikra einstaklinga. Þessi hópur fer stækkandi í okkar þjóðfélagi eins og í öllum hinum vestræna heimi þar sem bætt meðferð sjúkdóma hefur leitt til þess að fjöldi fólks lifir löngu og ágætu lífi eftir veikindi, en þarf á heilbrigðiskerfi að halda. Eftirlitið með langvinnum veikindum er heimilislæknum kært viðfangsefni en verkefnið krefst stöðugleika í mönnun. Þessu til viðbótar er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður fólks með áhyggjur af heilsu sinni og á landsbyggðinni sinna læknar allri bráðaþjónustu á sínu svæði.

Skipulag heilsugæslu byggir á því grundvallaratriði að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auk þessa er mikilvægt að tryggja að einstaklingar sem lifa við heilsubrest geti leitað til læknis sem þekkir viðkomandi og vanda hans. Í dreifbýlu landi hefur verið vandasamt að koma til móts við kröfur um sérhæfða og örugga heilbrigðisþjónustu eins og fram hefur komið í tengslum við umræðu um fæðingar í heimahéruðum, en heilsugæslan á landsbyggðinni á einnig undir högg að sækja. Heimilislæknum á landsbyggðinni fækkar. Læknishéruð eru víða mönnuð afleysingalæknum sem er neyðarúrræði, þegar ekki bjóðast læknar til að setjast að í minni þéttbýliskjörnum.

Höfundar eru formaður og stjórnarmaður í Félagi íslenskra heimilislækna.

Áratugir eru síðan ákvarðanir voru teknar um æskilega mönnun á landsbyggðinni og margt hefur breyst. Umferð á vegum, ferðamenn og dreifing íbúa eru breytur sem núverandi mönnun tekur ekki tillit til. Þetta gamla mönnunarlíkan gerir ráð fyrir um 104 heimilislæknum á landsbyggðinni og eru um 71 af þeim stöðum setnar. Þeim störfum sem út af standa er sinnt af afleysingalæknum.

Hlutfall heimilislækna af öllum læknum í OECD-löndunum er um 29% á meðan hlutfallið er 16% á Íslandi. Enn nemur meirihluti íslenskra lækna í Háskóla Íslands og eru þar 1,32 stöður kennara í heimilislækningum, sem er í engu samræmi við þann fjölda lækna sem starfar við greinina. Sérnám í heimilislækningum, 5 ára nám og starf, hefur staðið til boða á Íslandi í nokkur ár. Nú stunda 38 læknar námið sem er fjármagnað að tæplega helmingi miðað við þann fjölda. Framvindan annar hvergi eftirspurn eftir nýliðun sem þyrfti að vera tvöfalt meiri, eða að lágmarki um 15 læknar á ári hverju. Um þriðjungur núverandi sérnámslækna í heimilislækningum hefur hugsað sér að starfa á landsbyggðinni.

Strax er þörf á raunhæfri áætlun um fjölgun heimilislækna með sókn í menntun og aðbúnaði og brýnt að stórauka veg heilsugæslunnar.

Heilsugæslan er fyrsta stigs grunnþjónusta og með löngu tímabærri og bráðnauðsynlegri styrkingu hennar nást mörg markmið í senn, betri þjónusta, betra heilsufar, bætt aðgengi um allt land, aukin velferð og um leið mun meiri hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu landsmönnum öllum til heilla. Gleðilega hátíð.








Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×