Skoðun

Gamla Ísland vann

Bolli Héðinsson skrifar
Nýja ríkisstjórnin boðar engar sögulegar sættir, bara svo það sé alveg á hreinu. Stjórnin er mynduð af keimlíkum flokkum sem eru alls engar andstæður þó það þjóni VG að halda því fram. Álitsgjafar munu áfram falla í þá gryfju, að tala um póla og sögulegar sættir því það er þægilegra fyrir þá að halda á lofti gömlum klisjum en vinna heimavinnuna sína og skoða hvað flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina raunverulega standa fyrir.

Fyrir þá sem harma ákvörðun VG að ganga í björg Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er áhugavert að skoða dæmi um málefni sem VG telur sig ná fram nú en sem var ekki í boði með Samfylkingunni o.fl. flokkum. Þannig tryggir VG að útgerðin sleppur við að greiða sama auðlindagjald fyrir makrílveiðar og hún innir af hendi til Færeyinga, fjárhæð sem nemur nokkrum milljörðum. Með vali á sjávarútvegsráðherra verður einnig að telja að stórútgerðin í landinu hafi unnið fullnaðarsigur.

Hvað breyttist eftir kosningar?

Í fyrri ríkisstjórn máttu Björt framtíð og Viðreisn gera sér að góðu að umbera vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins þar til þeim var loks nóg boðið. Þannig verður það líka hjá VG. Hverju flóttabarni sem vísað verður úr landi á hæpnum forsendum; hver reglugerð sem á að hindra brottkast og stöðvuð verður af útgerðinni; hver dómaraskipan, allt verður þetta óhjákvæmilega í boði VG.

Fáir hafa lýst vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins með jafn afgerandi hætti og frambjóðendur VG gerðu í aðdraganda alþingiskosninganna. Nú hefur komið í ljós að því var greinilega bara ætlað að halda lífi í klisjunni um VG og Sjálfstæðisflokk sem andstæða flokka en alls ekki til brúks eftir kosningar.

Eftir því sem fleiri ríkisstjórnir eru myndaðar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að breyta engu, fjarlægist sá draumur sem margir báru í brjósti um að í kjölfar hrunsins hefði gamla Ísland, með öllum sínum sérhagsmunum og frændhygli verið kvatt og í vændum væri nýtt og betra Ísland sem byggði á öðrum gildum en þeim sem leiddu til hruns og misskiptingar. Þessi ríkisstjórn gerir þann draum enn fjarlægari og fyrir kjósendur sem vilja nýtt Ísland hefur fækkað um einn valkost.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×