Körfubolti

Craig þarf að svara ýmsum spurningum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Umræða um Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands í körfubolta, verður meðal þess sem tekið verður fyrir á fundum afreksnefndar og stjórnar KKÍ í næstu viku. Þetta sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í Akraborginni í gær.

Það hefur verið mikil gagnrýni á Pedersen eftir tap Íslands gegn Búlgaríu í Laugardalshöll á mánudagskvöld.



Sjá einnig:Stórlaxar af Suðurnesjum ósáttir við Pedersen: „Léleg stjórnun af bekknum“



Hannes sagði að það stæði ekki til að gera neinar breytingar á þjálfaramálum, en það sé eðlilegt að spyrja ýmissa spurninga.



„Eins og staðan er í dag þá er Craig landsliðsþjálfari og það er ekkert verið að fara að breyta því, það er alveg á hreinu,“ sagði Hannes. Hann tók það fram að ekki er um neyðarfundi að ræða, heldur væru þetta reglubundnir fundir.



Pedersen og þjálfarateymi hans er samningsbundið út þessa undankeppni sem liðið er í núna. Liðið þarf að lenda í einu af þremur efstu sætum riðilsins til þess að fara áfram í keppninni, sem er klárt markmið að Hannesar sögn. Það er enn mögulegt að íslenska liðið nái því, þó það verði erfitt eins og staðan er orðin.



Eitt af því sem hefur verið á milli tannanna á fólki er hversu lítið Tryggvi Snær Hlinason spilaði í leiknum.



„Þetta er það sama og maður spurði sig uppi í stúku í fyrrakvöld [á mánudaginn], afhverju hann væri ekki meira inn á,“ sagði Hannes. „Ég veit það alveg að þjálfarateimið og Craig sem aðallandsliðsþjálfari, treystir honum 150 prósent þó hann hafi ekki gert það þarna, annars hefði ekki verið farið í að fá hann frá Valencia.“



Sjá einnig: Trygg(v)ir ekki eftir á

„Það kom pínu bakslag í þetta með þessu tapi, þess vegna þurfum við að setjast niður og fara yfir þetta. Hvort við séum á þeirri vegferð sem við ætluðum okkur eða ekki. Markmiðið er ennþá skýrt, en við þurfum að fá ákveðin svör og vinna með það áfram hérna innandyra hjá okkur.“

„Við munum þurfa að spurja okkur ýmissa spurninga. Við eigum eftir að fá þjálfarateymið til að svara til okkar, bæði afreksnefndarinnar og stjórnarinnar. Þetta er allt hin eðlilegasta umræða, en við erum ekki að fara að gera neitt í augnablikinu,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands.

Næstu leikir Íslands í undankeppninni fara fram í febrúar, þegar liðið mætir Tékkum og Finnum á heimavelli.


Tengdar fréttir

Klaufalegt tap fyrir Búlgörum í Höllinni

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta kastaði frá sér unnum leik gegn Búlgaríu í undankeppni HM í gær. Strákarnir spiluðu vel lengst af en sóknin hrökk í baklás undir lokin. Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum í undankeppninni.

Fannar: Stór mistök að hafa Tryggva ekki inn á undir lokin

Fannar Ólafsson, fyrrverandi landsliðsmiðherji og sérfræðingur Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, skilur ekki af hverju Tryggvi Snær Hlinason var ekki inn á hjá íslenska landsliðinu undir lok leiksins gegn Búlgaríu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×