Erlent

Trump setur Norður-Kóreu aftur á hryðjuverkalista

Kjartan Kjartansson skrifar
Ákvörðun Trump gegn ríkisstjórn Kim Jong-un er sögð að mestu táknræn enda beita Bandaríkin Norður-Kóreu þegar hörðum þvingunaraðgerðum.
Ákvörðun Trump gegn ríkisstjórn Kim Jong-un er sögð að mestu táknræn enda beita Bandaríkin Norður-Kóreu þegar hörðum þvingunaraðgerðum. Vísir/AFP
Bandarisk stjórnvöld hafa sett Norður-Kóreu á lista yfir ríki sem þau telja styðja við hryðjuverk. Ákvörðun Donalds Trump forseta þýðir að Bandaríkin geta lagt frekari refsiaðgerðir á Norður-Kóreu. Trump segir að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna muni kynna aðgerðirnar á morgun.

Mikil spenna hefur ríkt á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu vegna kjarnavopna- og eldflaugatilrauna einræðisríkisins síðustu mánuðina. Trump og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafa ennfremur skipst á svívirðingum.

Norður-Kórea var á hryðjuverkalistanum þar til George W. Bush tók landið af honum til að liðka fyrir viðræðum um kjarnorkuáætlun stjórnvalda í Pjongjang. Á hryðjuverkalistanum eru ríki sem bandarísk stjórnvöld telja að leggið alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi lið. Norður-Kórea bætir þar í hóp Súdan, Sýrlands og Írans.

Þegar Trump tilkynnti um ákvörðunin í dag sagði hann að Norður-Kóreumenn yrðu að binda enda á ólöglega þróun sína á eldflaugum og kjarnorkuvopnum, að því er kemur fram i frétt New York Times.

Reuters-fréttastofan hefur eftir bandarískum embættismönnum að Norður-Kórea falli ekki undir skilgreiningu ríkja sem styðja hryðjuverkastarfsemi alþjóðlega. Sérfræðingar telji einnig að nýju refsiaðgerðirnar verði að mestu táknrænar enda beiti Bandaríkin stjórnvöld í Pjongjang þegar ströngum þvingunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×