Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti funduðu í rússneska bænum Sochi við Svartahaf í gær. Ekki var greint frá því fyrir fundinn hvað stæði til og var fyrst sagt frá fundi forsetanna í morgun. Reuters greinir frá.
Forsetarnir ræddu meðal annars ástandið í Sýrlandi en sýrlenski herinn náði yfirráðum í bænum al-Bukamal um helgina. Borginni hafði verið lýst sem síðasta vígi hryðjuverkasamtakanna ISIS í landinu.
„Við eigum enn langt í land áður en við náum algerum sigri á hryðjuverkamönnunum. En hvað varðar sameiginlega vinnu okkar að sigra hryðjuverkasamtök innan landsvæðis Sýrlands, þá má segja að hernaðarlegum aðgerðum fari senn að ljúka,“ sagði Pútín í samtali við rússneska sjónvarpsstöð.
Forsetinn rússneski óskaði Assad til hamingju með árangur Sýrlands í baráttunni gegn hryðjuverkum og þá þakkaði Assad Rússlandsstjórn fyrir bæði pólitískan og hernaðarlegan stuðning. Um var að ræða aðra ferð sýrlenska forsetans til Rússlands frá því að stríð braust út í Sýrlandi árið 2011.
Pútín segir mikilvægasta verkefnið nú sé að vinna að pólitískum lausnum og benti á að sýrlenskur starfsbróðir sinn væri reiðubúinn að vinna með öllum þeim sem vilja vinna að friði í landinu.
Ræðir við Trump
Pútín sagðist ennfremur ætla að ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta og fjölda leiðtoga ríkja í Mið-Austurlöndum um ástandið í Sýrlandi í síma í dag og þá mun hann funda með leiðtogum Írans og Tyrklands, Hassan Rouhani og Recep Tayyip Erdogan, á morgun.
Rouhani lýsti því yfir í sjónvarpsávarpi í morgun að hryðjuverkasamtökin ISIS hafi nú liðið undir lok.
Pútín og Assad funduðu í Sochi

Tengdar fréttir

Rússar beittu neitunarvaldi gegn efnavopnarannsóknum í Sýrlandi
Þetta er í tíunda sinn sem Rússar beita neitunarvaldi sínu varðandi ríkisstjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi.

Síðasti bær ISIS í Írak fallinn
Kalífadæmið liðið að lokum en skæruliðahernaður tekur við.