Viðskipti innlent

Sigurður Hreiðar til Íslenskra fjárfesta

Hörður Ægisson skrifar
Sigurður Hreiðar Jónsson hefur verið forstöðumaður markaðsviðskipta Íslenskra verðbréfa frá því í júní.
Sigurður Hreiðar Jónsson hefur verið forstöðumaður markaðsviðskipta Íslenskra verðbréfa frá því í júní.
Sigurður Hreiðar Jónsson, forstöðumaður markaðsviðskipta Íslenskra verðbréfa (ÍV), hefur sagt upp störfum hjá félaginu og mun senn ganga til liðs við verðbréfafyrirtækið Íslenska fjárfesta, samkvæmt heimildum Markaðarins. Aðeins fimm mánuðir eru síðan Sigurður Hreiðar hóf störf hjá ÍV.

Áður en hann fór til Íslenskra verðbréfa starfaði Sigurður Hreiðar um skamma hríð hjá Klettum Capital, sem var stofnað í árslok 2016 og annaðist eignastýringu fyrir hönd viðskiptavina, ásamt þeim Jóni Gunnari Sæmundsen og Jónasi Gunnarssyni, fyrrverandi starfsmönnum í markaðsviðskiptum Íslandsbanka. Sigurður Hreiðar hefur á síðustu árum auk þess starfað sem verðbréfamiðlari hjá Kviku, Straumi fjárfestingabanka, Arion banka og Íslandsbanka.

Sigurður mun starfa við hlutabréfamiðlun hjá Íslenskum fjárfestum en Hannes Árdal, sem kom til félagsins frá Fossum mörkuðum fyrr á árinu, hefur verið skuldabréfamiðlari hjá fyrirtækinu. Íslenskir fjárfestar hófu starfsemi sína árið 1994 en framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Karl Jóhann Ottósson. Hann er jafnframt stærsti einstaki hluthafi þess með ríflega 80 prósenta hlut í árslok 2016.

Fréttin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×