Handbolti

Formaðurinn sem rak Arnar frá Fjölni staðfestir að Arnar verður áfram með Fjölni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Gunnar heldur áfram með Grafarvogsstrákana.
Arnar Gunnar heldur áfram með Grafarvogsstrákana. vísir/eyþór
Einu furðulegasta máli íslensks íþróttalífs þetta árið virðist lokið.

Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis í Olís-deild karla í handbolta, verður áfram þjálfari liðsins. Það er afar áhugavert í ljósi þess að hann var rekinn í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á heimasíðu Fjölnis en þar segir að formaður handknattleiksdeildar, Aðalsteinn Snorrason, að hann hafi lagt fram sáttartillögu á stjórnarfundi á mánudaginn sem var samhljóða samþykkt.

Aðalsteinn var einmitt maðurinn sem rak Arnar úr starfi en hann sendi fréttatilkynningu á fjölmiðla þess efnis í síðustu viku. Þar var Arnari þakkað fyrir góð störf.

Seinna kom í ljós að Aðalsteinn hafði ekki stuðning stjórnarinnar í þessu máli eins og kom fram í Facebook-færslu frá Jarþrúði Hönnu Jóhnnsdóttur, stjórnarmanni og meðlimi í meistaraflokksráði. Sagði hún að Aðalsteinn hefði verið þarna einn að verki.

Mikil óvissa skapaðist eftir þetta furðulega mál og var æfingu Fjölnisliðsins daginn eftir slaufað. Arnar hélt svo áfram að stýra liðinu og var ljóst að hann myndi halda áfram sem þjálfari þess eins og Vísir greindi frá.

Aðalsteinn Snorrason skrifar sjálfur undir tilkynninguna á heimasíðu Fjölnis í dag og kemur því áleiðis að hann hafi ekki einn viljað losna við Arnar.

„Af gefnu tilefni vill formaður deildarinnar árétta að hann hefur ekki staðið einn í þessu máli og að það er mjög leitt hvernig mál þróuðust. Fjölnismenn munu nú aftur snúa bökum saman og þétta raðirnar,“ segir Aðalsteinn Snorrason.

Fjölnir mætir FH í frestuðum leik í Olís-deildinni í kvöld klukkan 19.30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×