Handbolti

Eyjamenn víxla enn einum leiknum og klára nánast restina af mótinu á heimavelli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurbergur Sveinsson og félagar verða meira og minna heima í Eyjum.
Sigurbergur Sveinsson og félagar verða meira og minna heima í Eyjum. vísir/ernir
ÍBV er búið að fá að víxla enn einum útileiknum í Olís-deild karla í handbolta en liðið er ekki enn þá búið að spila heimaleik þrátt fyrir að átta umferðir eru búnar af deildinni.

Til stóð að ÍBV myndi spila fyrsta heimaleikinn á tímabilinu á móti FH í Vestmannaeyjum á mánudagskvöldið en fresta þurfti þeim leik vegna þátttöku beggja liða í Evrópukeppni.

Nú er búið að setja þann leik á næsta miðvikudag klukkan 19.30 og er búið að víxla heimaleikjum þannig að leikurinn fer fram í Kaplakrika.

ÍBV átti upphaflega að spila fyrsta heimaleikinn á móti Val 15. október en fékk þeim leik víxlað líka þar sem Eyjamenn eru að leggja nýtt parket í íþróttahöllinni í Vestmannaeyjum. Það hefur dregist verulega á langinn.

Fyrsti heimaleikur ÍBV, ef fleiri breytingar verða ekki gerðar, verður á móti Fram miðvikudaginn 22. nóvember í elleftu umferð deildarinnar sem er jafnframt síðasta umferð fyrri helmings deildakeppninnar.

Alls munu líða ríflega sjö mánuðir eða 221 dagur á milli heimaleikja ÍBV en síðast spilaði liðið heimaleik í átta liða úrslitum Olís-deildarinnar í apríl þegar að liðið tapaði fyrir Val og var sent í sumarfrí.

Eftir leikinn á móti FH í næstu viku eiga Eyjamenn þrettán leiki eftir í Olís-deildinni og spila þeir ellefu af þessum þrettán leikjum á heimavelli. Eftir leik í Garðabæ miðvikudaginn 6. desember á móti Stjörnunni mun ÍBV spila níu heimaleiki í röð áður en liðið klárar deildarkeppnina í Safamýri á móti Fram 25. mars.

Þrátt fyrir að vera bara búið að spila á útivelli er ÍBV í fjórða sæti deildarinnar með tólf stig eins og Haukar, fjórum stigum frá toppliði FH. Eyjamenn eru búnir að mæta þremur af fjórum efstu liðum deildarinnar á útivelli (Valur 2. sæti, Haukar 3. sæti og Selfoss 5. sæti) og fá þrjú stig af sex mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×