Innlent

Heimilisofbeldi markaði nóttina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. Vísir/Getty
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust þrjár tilkynningar um heimilisofbeldi í nótt. Í aðeins einu málanna voru hendur hafðar í hári þess brotlega.

Fyrsta tilkynningin barst á sjötta tímanum úr hverfi 105, Hlíðum og Holtum. Að sögn lögreglu hafði þar fyrrverandi maki reynt að brjótast inn en var farinn þegar lögreglan kom á vettvang.

Um tveimur klukkustundum síðar var aftur tilkynnt um heimilisofbeldi í hverfi 105. Lögreglan hafði þá erindi sem erfiði og handtók árásarmanninn. Var hann í kjölfarið vistaður í fangageymslu. Í dagbók lögreglunnar er ekki greint frá því hvort að málin tvö tengist með einhverjum hætti eða hvort að um algjörlega óskyld mál sé að ræða.

Þriðja tilkynningin barst svo skömmu fyrir klukkan 1 í nótt úr Árbæ. Árásarmaðurinn var á bak og burt þegar lögreglan kom á svæðið. Ekki er nánar greint frá málavöxtum eða hvort einhver liggi undir grun.

Þá voru að sama skapi þrír menn í annarlegu ástandi handteknir í nótt, í þremur aðskildum málum. Allir voru þeir færðir í fangaklefa þar sem þeir hafa nýtt nóttina til að sofa úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×