íslenska handboltalandsliðið lék tvo leiki við Svía um helgina, vann þann fyrri en tapaði þeim seinni eftir slakar upphafsmínútur. Ungir leikmenn fengu sín fyrstu alvöru tækifæri í þessum leikjum og stóðu sig vel.
Logi Geirsson þekkir vel til íslenska landsliðsins en hann fetaði í fótspor föður síns, Geirs Hallsteinssonar, og varð lykilmaður í íslenska landsliðinu. Logi átti stóran þátt í því að Ísland vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Logi hefur síðan verið duglegur að segja sínar skoðanir á íslenskum handbolta og það boðar gott að hann sjái að landsliðið sé á réttri leið inn í framtíðina.
„Geir Sveins er að gera nákvæmlega það sem þurfti að gera. Ekki árangursríkt núna en fimm skref til framtíðar. Ánægður með hann,“ skrifar Logi á Twitter.
Íslenska landsliðið keppir á EM í Króatíu í byrjun næsta árs og þar verður fróðlegt að sjá hversu margir af þessum ungum strákum verða valdir í EM-lið Geirs Sveinssonar.
Það er ekki slæmt að standast fyrsta prófið á móti sterku landsliði eins og Svíþjóð og þá hafa margir þessara stráka verið að gera flotta hluti með yngri landsliðum.
Geir Sveins er að gera nákvælega það sem þurfti að gera. Ekki árangursríkt núna en fimm skref til framtíðar. Ánægður með hann #handbolti
— Logi Geirsson (@logigeirsson) October 30, 2017