Handbolti

Formaðurinn rak Arnar án stuðnings stjórnarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Gunnarsson kom Fjölni upp í Olís-deildina.
Arnar Gunnarsson kom Fjölni upp í Olís-deildina. vísir/ernir
Eins og kom fram fyrr í dag er Arnar Gunnarsson ekki lengur þjálfari Fjölnis í Olís-deild karla í handbolta en Aðalsteinn Snorrason, formaður handknattleiksdeildar félagsins, sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem tilkynnt var að Arnar væri hættur störfum.

Arnar hætti ekki heldur var hann rekinn af Aðalsteini sem tók þá ákvörðun nánast einn síns liðs og án þess að boða stjórnafund. Þetta segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, stjórnarmaður og meðlimur í meistaraflokksráði Fjölnis, á Facebook-síðu sinni.

„Hið rétta er að formaður deildarinnar hefur rekið hann frá deildinni. Sem stjórnarmaður og meðlimur í meistaraflokksráði tilkynni ég að ekki hefur verið boðað til neins fundar né þessi ákvörðun rædd af stjórn deildarinnar né meistaraflokksráði,“ segir hún.

„Hér er um að ræða ákvörðun eins manns sem hefur einn eða tvo stjórnarmenn að baki sér en ekki ákvörðun meirihluta stjórnar deildarinnar. Ég lýsi því hér með yfir að þarna tel ég formann deildarinnar hafa farið út fyrir sínar heimildir sem formaður.“

Jarþrúður segir að ekki sé búið að ganga frá formlegri uppsögn þjálfarans þó svo búið sé að tilkynna fjölmiðlum um uppsögn hans en þetta finnst henni ekki góð vinnubrögð.

„Þetta eru vinnubrögð sem mér finnst engan vegin eiga heima hvort heldur sem er í íþróttastarfi né á almennum vinnumarkaði,“ segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×