Erlent

Ramola Garai um samskipti sín við Weinstein: „Ég var bara 18 ára og mér fannst á mér brotið“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Harvey Weinstein og Ramola Garai áttu fund þegar hún var 18 ára gömul og reyna að koma sér á framfæri í kvikmyndabransanum. Hún segir fundinn hafa verið niðurlægjandi.
Harvey Weinstein og Ramola Garai áttu fund þegar hún var 18 ára gömul og reyna að koma sér á framfæri í kvikmyndabransanum. Hún segir fundinn hafa verið niðurlægjandi. vísir/getty

Bresku leikkonunni Ramolu Garai fannst brotið á sér eftir fund með kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein.



Í viðtali við The Guardian segir leikkonan að hún hafi verið 18 ára þegar Weinstein boðaði hana á fund með sér á Savoy-hótelinu í London. Garai segir að fundurinn hafi verið niðurlægjandi og að á honum hafi Weinstein misnotað vald sitt en hann tók á móti henni á slopp einum klæða.



Garai, sem lék meðal annars í The Atonment og þáttunum The Hour, er ekki fyrsta leikkonan til þess að lýsa slæmri upplifun sinni af samskiptum sínum við Weinstein og saka hann um kynferðislega áreitni. Konur í kvikmyndabransanum hafa seinustu daga stigið fram og sagt frá áreitni kvikmyndaframleiðandans í þeirra garð.



Ítarleg umfjöllun bandaríska blaðsins New York Times um áreitni Weinstein vakti mikla athygli í liðinni viku og á sunnudaginn var hann rekinn frá sínu eigin framleiðslufyrirtæki, The Weinstein Company, vegna ásakananna.



„Eins og önnur hver kona í þessum brans þá hef ég farið í „prufu“ hjá Harvey Weinstein, en ég var í raun búin að fara í prufu. Hann þurfti bara persónulega að samþykkja þig. Ég þurfti því á hótelherbergið hans í Savoy þar sem hann tók á móti mér í baðslopp einum klæða. Ég var bara 18 ára, mér fannst á mér brotið og ég á enn mjög sterka minningu um þetta,“ segir Garai í samtali við The Guardian.



Garai segir að þetta atvik í London hafi gefið henni vísbendingar um það hvernig Weinstein nálgaðist konur í kvikmyndabransanum. Þannig setti hann ungar leikkonur, sem gjarnan voru örvæntingarfullar um að ná langt, í niðurlægjandi aðstæður til að sanna að hefði valdið yfir þeim.



„Ég var bara þarna og punkturinn var að hann gat fengið unga konu til koma þarna til hans. Ég hafði ekkert val, þetta var niðurlægjandi og hann var með valdið. Þetta var misnotkun á valdi,“ segir Garai.



Bæði Meryl Streep og Judi Dench, sem báðar hafa unnið mikið með Weinstein, hafa báðar fordæmt framkomu Weinstein en sögðust hvorugar hafa vitað af henni.


Tengdar fréttir

Harvey Weinstein rekinn

Í yfirlýsingu frá stjórn fyrirtækisins segir að í ljósi nýrra upplýsinga hafi sú ákvörðun verið tekin að segja Weinstein upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×