Erlent

Grínaðist með að nauðga fallegum konum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jason Momoa er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Khal Drogo í Krúnuleikunum.
Jason Momoa er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Khal Drogo í Krúnuleikunum. Vísir/Getty

Stórleikarinn Jason Momoa sætir nú gagnrýni fyrir að hafa grínast með að „nauðga fallegum konum“ í pallborðsumræðum.

Í myndbandi frá Comic Con-teiknimyndahátíðinni árið 2011 má heyra Momoa lýsa hrifningu sinni á ævintýra- og vísindaskáldsögum, en hann hefur gert garðinn frægan fyrir leik í þáttunum Game of Thrones og kvikmyndum á borð við Justice League og Batman vs. Superman.

„Það er svo margt sem þú getur gert. Eins og að rífa tunguna úr manneskju eða skera hana á háls og komast upp með það,“ sagði Momoa, þagnaði svo í smástund áður en hann bætti við „Nauðga fallegri konu, þú veist?“

Myndbandið má sjá hér að neðan en það hefur náð töluverðri dreifingu á samfélagsmiðlum eftir að því var hlaðið inn á Twitter á þriðjudag.

Eftir ummælin má heyra hvernig þorri aðdáenda virðist hlæja meðan meðleikurum Momoa finnst þetta óþægilegt.

Margir hafa gagrýnt ummæli leikarans á samfélagsmiðlum. „Það að allir hafi hlegið af brandara um nauðgun ER nauðgunarmenning. Hláturinn er ástæða þess að þolendur stíga ekki fram,“ sagði einn netverjinn til að mynda.

Leikarinn hefur beðist afsökunar á ummælunum og segir reiðina í sinn garð vera réttmæta. „Ég er ennþá hjartanlega vonsvikinn með mig og ónærgætni mína. Ég veit að einlæg afsökunarbeiðni mín mun ekki láta þessi orð gufa upp. Allir geta orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða nauðgun og ég hef orðið vitni af afleiðingum þeirra af fyrstu hendi í gegnum þjáningu fjölskyldu og vina,“ sagði Momoa á Instagram-síðu sinni.

Myndbandið kemur fram þegar fátt er um annað rætt en framferði kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein sem grunaður er um að hafa nauðgað hið minnsta fjórum konum og áreitt tugi annarra. Lögreglan í New York rannsakar nú mál hans.


Tengdar fréttir

Verst geymda leyndarmál Hollywood í áratugi

Harvey Weinstein hefur verið einn valdamesti maðurinn í Hollywood í áratugi. Hann hefur nú verið rekinn frá framleiðslufyrirtæki sínu og er á leið í meðferð við kynlífsfíkn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×