Innlent

Ný mið gætu opnast í Norður-Íshafi

Hersir Aron Ólafsson skrifar

Íslendingar gætu haft hagsmuni af fiskveiðum í Norður-Íshafi í framtíðinni. Þetta segir sérfræðingur hjá Utanríkisráðuneytinu, en hafsvæðið tekur nú miklum breytingum samhliða hlýnun jarðar. Ekkert eitt ríki á tilkall til miðanna á þessu hafsvæði, en unnið er að samningum um skipulag fiskveiða.



Samningaviðræður standa yfir milli níu ríkja sem hagsmuni hafa af þróun sameiginlega hafsvæðisins. Íslendingar eiga aðild að þeim viðræðum ásamt þjóðum á borð við Kanada, Kína og Rússland. Jóhann Sigurjónsson, formaður samninganefndar Íslands í Norður-Íshafsviðræðum, flutti erindi á hringborði Norðurslóða í dag og sagði frá gangi viðræðna. Hann bendir á að í dag sé hafsvæðið í raun einskismannsland.



Samkomulagið gengur út á að mynda einhvers konar ramma um stjórn fiskveiða á svæðinu. Þetta væri að miklu leyti fyrirbyggjandi aðgerð og kæmi í veg fyrir að ríki gætu, ef færi myndast, sent stóra flota fiskveiðiskipa á miðin og þannig hugsanlega stuðlað að ofveiði.



Ekki er komin lending í viðræðurnar, en Jóhann segir að ekki hafi enn náðst sátt milli ríkja um ýmis atriði samkomulagsins. Aftur á móti hafi Íslendingar mikla hagsmuni af því að stjórn fiskveiða verði með skynsamlegum hætti, enda geti opnast ný mið í Norður-Íshafi á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×