Innlent

Hani hafði tekið að sér umferðarlöggæslu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Haninn lagði á flótta þegar lögregluna bar að garði.
Haninn lagði á flótta þegar lögregluna bar að garði. Vísir/GVA
Lögreglunni barst tilkynning klukkan 17:46 í dag um hana á ferð á Höfðabakka. Hafði haninn tekið sér stöðu á gatnamótum og valdið truflun á umferð með sínum miklu líkamsburðum. Haninn lagði á flótta þegar lögregluna bar að garði enda hafði hann tekið að sér hlutverk sem honum var ekki ætlað, að taka að sér löggæslu.

Þetta var eitt þeirra 58 mála sem komu inn á borð lögreglunnar í dag milli 15 og 23.

Klukkan 17:13 var tilkynnt um bílveltu í Austurbergi í Breiðholti. Var ökumaður fluttur af vettvangi með sjúkrabíl. Þá vartilkynnt um umferðaróhapp á Óseyrarbraut í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan 19. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Klukkan 16:11 var ökumaður handtekinn á Reykjanesbraut við Lækjargötu í Hafnarfirði en maðurinn reyndist vera undir áhrifum fíkniefna. Lögreglunni barst tilkynning um bifhjólaslys í Klettagörðum rétt fyrir klukkan 23, en minniháttar meiðsli voru á ökumanni hjólsins.

Þá barst tilkynning um eld á Álftanesi um klukkan 19 en um var að ræða eld í sorpi. Klukkan 22:14 var tilkynnt um innbrot í húsnæði í vesturbæ Reykjavíkur og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×