Erlent

Harvey Weinstein rekinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Harvey Weinstein hefur verið vikið úr starfi vegna ósæmilegrar hegðunar.
Harvey Weinstein hefur verið vikið úr starfi vegna ósæmilegrar hegðunar. Vísir/Getty

Kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein hefur verið vikið frá störfum sem stjórnarformaður The Weinstein Company. Þetta gerist í skugga ásakana fjölda kvenna um kynferðislegt áreiti en fréttaflutningur af því í New York Times þann fimmta október varð til þess að Weinstein fann sig knúinn til þess að taka sér leyfi frá störfum um óákveðinn tíma.

Í yfirlýsingu frá stjórn fyrirtækisins er sagt frá aðdraganda þess að reka þurfti kvikmyndaframleiðandann. Í henni segir að í ljósi upplýsinga um ósæmilega hegðun Weinsteins hafi sú ákvörðun verið tekin að reka Weinstein. Uppsögnin taki gildi þegar í stað. Frá þessu greinir fréttastofa CNBC.

Leikkonan Ashley Judd er á meðal þeirra sem segja frá sínum raunum vegna samskipta við Harvey Weinstein.Vísir/Getty

Í umfjöllun New York Times kom fram að leikkonurnar Ashley Judd og Rose McGowan og fyrrverandi aðstoðarkona hans og starfsmenn fyrirtækisins saka Weinstein um kynferðislega áreitni í þeirra garð. Í umfjöllun New York Times segja konurnar frá því að Weinstein hafi sýnt af sér óviðeigandi framkomu. Hann hafi staðið fyrir framan þær nakinn og krafist þess að þær yrðu viðstaddar þegar hann færi í sturtu og farið fram á nudd frá þeim og boðist til þess að nudda þær. Í fréttinni kemur fram að ásakanir á hendur Weinstein spanni yfir þrjá áratugi.

Weinstein hefur fram að þessu verið andlit fyrirtækisins. Á neyðarfundi sem haldinn var sama kvöld og fréttin birtist í New York Times var stungið upp á því að Bob Weinstein, bróðir Harveys sem hefur haldið sig utan sviðsljóssins, og David Glasser tækju yfir stjórn fyrirtækisins.

Weinstein bræðurnir stofnuðu The Weinstein Company eftir þeir yfirgáfu Miramax árið 2005. Miramax var stofnað árið 1979 og átti mikilli velgengni að fagna á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. The Weinstein Company hefur einnig notið velgengni með Óskarsverðlaunamyndir á borð við The King‘s Speech og The Artist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×