Íslenski boltinn

Pape um kynþáttafordóma í sinn garð: „Nota gamaldags orð eins og surtur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pape Mamadou Faye í leik gegn Fylki á síðustu leiktíð.
Pape Mamadou Faye í leik gegn Fylki á síðustu leiktíð. vísir/ernir
„Ég hafði ekki hugmynd um hvað kynþáttahatur var fyrr en ég flutti til Íslands,“ segir Pape Mamadou Faye, framherji Víkings Ólafsvíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta í viðtali í DV, en Pape er einn af þeim sem mun taka til máls á ráðstefnu í Hörpu í dag sem ber heitið: „Hatursorðræða í íslensku samfélagi.“

Pape segir frá kynþáttaníði í hans garð á Ísland í viðtalinu en þessi öflugi framherji flutti frá Senegal til Íslands þegar að hann var ellefu ára gamall. Hann byrjaði Val en fór síðar í Fylki.

Hann segist strax hafa orðið fyrir fordómum, sér í lagi frá foreldrum drengja úr liðum andstæðinganna.

„Þetta gerðist oftar þegar ég var yngri. Þegar að maður er lítill er auðveldara að brjóta mann niður. Sum af þessum orðum særa mig meira en N-orðið. Þau notuðu gamaldagsorð eins og surtur,“ segir Pape.

Pape segist hafa fengið beina morðhótun í SMS-skeyti fyrir leik gegn Fjölni og voru sérstakar ráðstafanir gerðar fyrir þann leik þar sem tveir lögreglubílar vöktuðu svæðið.

Fjölgun ferðamanna á Íslandi hefur gert líf Pape auðveldara en á árum áður var starað á hann hvert sem hann fór. Hann segir fólk forðast það að sitja við hliðina á honum í strætisvögnum. Helst eru fordómarnir áberandi í sundi.

„Í hverri sundlaug er yfirleitt einn pottur með þægilegasta hitastiginu sem flestir eru í. Ég hef oft lent í því að ef ég sest í heitan pott tæmist hann á tveimur mínútum,“ segir Pape Mamadou Faye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×