Skoðun

Umheimur á hröðu breytingaskeiði

Guðmunda Smáradóttir skrifar
Umheimurinn er að fara í gegnum eitt magnaðasta og hraðasta breytingaskeið sögunnar. Nýsköpun og tækni eru og verða lykilorð þessa umbreytingatímabils. Í þessu samhengi er oft talað um fjórðu iðnbyltinguna sem mun bylta vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann á komandi árum. Stór hluti þeirra starfa sem við þekkjum í dag mun breytast, jafnvel hverfa, og ný störf verða til.

Tækifærin sem munu skapast við þessa umbreytingu eru mikil, en erum við sem samfélag tilbúin til að takast á við þessa áskorun? Við þessi tímamót sannast hið fornkveðna að „mennt er máttur“. Í menntun felast tækifæri til að bregðast við hinu óþekkta og skapa ný tækifæri. Menntun í tækni og nýsköpun þarf að færast ofar á forgangslistann á öllum menntastigum og áhugavert væri að sjá meira samstarf og gegnsæi á milli ólíkra menntastiga.

Nýsköpun felst í hnotskurn í að skapa eitthvað nýtt eða endurbæta eitthvað sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við menntastofnanir og atvinnulífið í heild. Geta skipulagsheilda til nýsköpunar er mikilvægt samkeppnisforskot og skiptir sköpum í því hvort fyrirtæki og stofnanir lifi af í síbreytilegu umhverfi. Þverfagleiki, sköpunargleði og hæfni til að starfa í teymi með ólíkum einstaklingum eru jafnframt veigamikil atriði í þessu samhengi. Mikilvægt er að áhersla á tækni og nýsköpun verði samofin í menntakerfið frá upphafi skólagöngu og í gegnum allt lífið.

Lærdómur og skapandi hugsun ætti að verða lífsstíll, eitthvað sem endar aldrei þannig að við séum sífellt í stakk búin til þess að aðlagast breyttu umhverfi og takast á við nýjar áskoranir í lífi og starfi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×