Innlent

Ekkert byggt utan höfuðborgarsvæðis

Sveinn Arnarsson skrifar
Húsnæðisskortur er ekki einungis vandamál á höfuðborgarsvæðinu.
Húsnæðisskortur er ekki einungis vandamál á höfuðborgarsvæðinu. vísir/vilhelm
Áttatíu prósent alls nýs íbúðarhúsnæðis frá hruni fjármálakerfisins árið 2008 hafa verið byggð á höfuðborgarsvæðinu. Algjört frost hefur verið í byggingum nýrra íbúða utan stórhöfuðborgarsvæðisins ef Akureyri er frátalin. Á sama tíma segjast sveitarstjórnarmenn finna fyrir áhuga fólks á að flytja í landsbyggðirnar en húsnæði skortir.

Illugi Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar.
Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismál í landsbyggðunum sem haldinn var í Háskólanum á Akureyri. Þar kom fram að húsnæðisskortur væri mjög mikill fjarri höfuðborginni í hinum dreifðu byggðum landsins en lítið sem ekkert framboð væri af húsnæði.

„Það er skortur á húsnæði hjá okkur í Húnaþingi vestra,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri. „Það gengur til að mynda erfiðlega að manna starfsfólk í okkar sveitarfélagi. Fólk vill koma og vinna í sveitarfélaginu og vinnu er að hafa. Hins vegar getur það ekki komið því það er skortur á húsnæði. Okkar vandi er síður en svo einsdæmi.“

Sveitarfélög landsins vinna nú að húsnæðisáætlun sem mun hjálpa Íbúðalánasjóði mjög við greiningu á vandanum. Húsnæðisþing sveitarfélaganna er áformað um miðjan næsta mánuð þar sem sveitarfélög munu ráða ráðum sínum.

Illugi Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, segir tækifæri fyrir stofnunina og Íbúða­lánasjóð að vinna nánar saman að kortlagningu málaflokksins í heild og skoða landið svæðaskipt. Vandi svæða sé mismunandi eftir staðsetningu og því þurfi að afla frekari gagna til að geta áttað sig betur á þessum mikla húsnæðisvanda í landsbyggðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×