Lífið

Kórar Íslands: Kvennakór Reykjavíkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi sína í janúar 1993.
Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi sína í janúar 1993.
Kórar Íslands er nýr skemmtiþáttur sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur en Friðrik Dór Jónsson, einn ástsælasti söngvari landsins, verður kynnir þáttanna. Dómnefndina skipa tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir.

Annar þátturinn fer í loftið á sunnudaginn og koma þar fram fjórir kórar og keppa um tvö laus sæti áfram í undanúrslitin.

Hér að neðan ætlum við að fá að kynnast Kvennakór Reykjavíkur sem kemur fram í öðrum þætti á sunnudagskvöldið í beinni útsendingu á Stöð 2 klukkan 19:10.

Kvennakór Reykjavíkur

Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi sína í janúar 1993. Hugmynd að stofnun kórsins áttu Margrét J. Pálmadóttir ásamt áhugasömum konum í kórskóla Margrétar í Kramhúsinu árið 1992.

Fyrsti stjórnandi var Margrét J. Pálmadóttir og stjórnaði hún kórnum til vors 1997. Sigrún Þorgeirsdóttir tók við stjórn kórsins í september 1997 og stjórnaði hún kórnum í rúm 12 ár.

Núverandi stjórnandi er Ágota Joó en hún tók við af Sigrúnu í byrjun árs 2010. Fyrsta æfing var 25. janúar 1993 en kórinn var formlega stofnaður 8. maí sama ár að loknum vortónleikum í Langholtskirkju. Markmið Kvennakórs Reykjavíkur er samkvæmt lögum hans að efla söngmennt kvenna.

Kórar í tengslum við Kvennakór Reykjavíkur

Á fyrstu starfsárum Kvennakórs Reykjavíkur var aðsókn mikil og stofnaði kórinn þrjá nýja kóra til að anna eftirspurn, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, Gospelsystur og Senjorítur. Auk þess var Vox feminae stofnaður af félögum innan Kvennakórs Reykjavíkur, sem vildu syngja oftar og erfiðari verk. Árið 2000 var samið um að Kvennakór Reykjavíkur hætti afskiftum af rekstri hinna kvennakóranna og þeir yrðu sjálfstæðir kórar. Kvennakór Reykjavíkur rekur nú Senjorítur, kór eldri kvenna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×