Íslenski boltinn

Willum: Mjög markviss vinna með unga leikmenn í KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

KR steinlá fyrir ÍBV, 0-3, í Pepsi-deildinni á laugardaginn. Willum var talsvert gagnrýndur fyrir að nota Guðmund Andra Tryggvason ekki í leiknum. Þjálfarinn segir að umræðan hafi verið á villigötum enda hafi Guðmundur Andri verið meiddur.

„Annar flokkurinn spilaði mjög erfiðan og þýðingarmikinn leik á fimmtudegi þar sem Guðmundur Andri meiddist á ökkla. Það ærðist allt þegar hann kom ekki inn á. Hann var bara meiddur og treysti sér ekki inn á,“ sagði Willum.

„Við verðum líka að passa upp á hann. Hann spilaði 90 mínútur á laugardegi á móti Wales, 90 mínútur á þriðjudegi gegn Wales, 90 mínútur á fimmtudegi á móti Breiðabliki. Þetta var stórkarlalegur leikur á margan hátt og hörkunávígi. Hann treysti sér ekki inn á.“

Willum hefur fengið nokkra gagnrýni fyrir að gefa ungum KR-ingum ekki nógu mörg tækifæri í sumar. Hann segir að það sé markvisst unnið að því að fjölga ungum KR-ingum í aðalliðinu.

„Það er mjög markviss vinna í gangi með það. Það er haldið vel utan um unga menn. Við erum með efnilega stráka, fædda árið 1999. Ástbjörn [Þórðarson] kom inn á móti Fjölni og Val, í þýðingarmiklum leikjum og þurfti að leysa ákveðið hlutverk. Hann er bara næsti maður inn í vörn. Það er staðan,“ sagði Willum.

„Það voru fjórir ungir menn á bekknum í þessum leik [gegn ÍBV]. Það er mjög fín vinna með unga menn í KR. Það er allt í góðum málum.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×