Þetta kemur fram í tilkynningu VÍS til Kauphallarinnar en þar er greint frá því skipurit félagsins hafi verið einfaldað til muna þar sem framkvæmdastjórar verða fjórir í stað sex og þá er stjórnendum fækkað úr 33 í 26. Breytingarnar eru sagðar liður í aukinni áherslu á stafrænar lausnir í þjónustu við viðskiptavini og til að búa fyrirtækið betur undir framtíðaráskoranir sem blasa við.
Í tilkynningu VÍS segir að Agnar Óskarsson, framkvæmdastjóri tjónasviðs, Guðmar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og Þorvaldur Jacobsen, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, muni láta af störfum í kjölfar þessara breytinga.
Þá hefur Vísir heimildir fyrir því að Tryggva Guðbrandssyni, sem hefur verið forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS, hafi einnig verið sagt upp störfum hjá félaginu.

Helgi Bjarnason, sem tók við sem forstjóri VÍS síðastliðið sumar, segir í tilkynningu: „Við erum að þétta raðirnar og endurhugsa alla okkar nálgun og snertingu við viðskiptavini. Það er hluti af markmiði okkar sem er að veita viðskiptavinum VÍS bestu þjónustu sem völ er á. Við leggjum einnig með þessum skipulagsbreytingum aukna áherslu á stafrænar lausnir sem við teljum gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni okkar til framtíðar.“