Íslenski boltinn

Martinez: Bjóst ekki við því að vera svona lengi á Íslandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Cristian Martinez hefur komið Víkingum til bjargar í þó nokkrum leikjum í sumar.
Cristian Martinez hefur komið Víkingum til bjargar í þó nokkrum leikjum í sumar.
Cristian Martinez er að klára sitt þriðja tímabil á milli stanganna hjá Víkingi Ólafsvík. Hann hefur komið sér vel fyrir á Snæfellsnesi og er meðan annars að þjálfa sund.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að fá að þjálfa fótbolta og sund í vetur,“ sagði Martinez í viðtali við heimasíðu Víkings. „Mér finnst báðar íþróttagreinar skemmtilegar auk þess sem ég hef mjög gaman af því að vinna með börnum. Vonandi munu börnin skemmta sér líka.“

„Alltaf þegar ég fer í sund þá reyni ég að gera meira en ég get. Annars hef ég því miður ekki haft mikinn tíma fyrir sund í sumar. Ég bæti úr því þegar keppnistímabilinu í fótboltanum er lokið.“

Víkingur Ó er í bullandi fallbaráttu í Pepsi deild karla, og hefur Cristian því ekki átt sjö dagana sæla í sumar. Þrátt fyrir það hefur hann enst lengur á Íslandi en hann bjóst við.

„Nei ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég yrði svona lengi á Íslandi og farinn að vinna í skólanum hérna. En ég er mjög ánægður með þetta og vil nýta tækifærið til að þakka öllum sem hafa hjálpað mér að koma mér fyrir á Íslandi. Mér finnst ég vera heima hjá mér.“

Sjá einnig:Pepsi-mörkin: Ejub er að fara að brjóta sjónvarpið sitt

„Ég kann vel við Snæfellsbæ því þetta er mjög rólegt og friðsælt bæjarfélag. Fólkið hérna er líka ótrúlega almennilegt og alltaf tilbúið til að rétta fram hjálparhönd ef maður þarf á því að halda,“ sagði Cristian Martinez að lokum.

Víkingar eiga erfiðan útileik við Stjörnuna í 19. umferð deildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×