Íslenski boltinn

Fannst vont að stýra KR á móti syni sínum: „Hann fær allavega að borða heima hjá sér“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Willum er þjálfari KR og hann þarf núna helst að krækja í níu stig í næstu þremur leikjum.
Willum er þjálfari KR og hann þarf núna helst að krækja í níu stig í næstu þremur leikjum.
„Þetta var heldur betur kærkominn sigur. Við vorum staðráðnir í það að bæta upp fyrir þessa slæmu frammistöðu í síðasta leik og menn gerðu það svo sannarlega,“ segir Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, eftir sigurinn á Breiðablik í Pepsi-deild karla í kvöld. KR vann leikinn 3-1. 

„Við komum bara á fullu inni í þennan leik og það var allan tímann mikil barátta í liðinu. Alvöru íþróttamenn svara því þegar þeir fá á lúðurinn og það gerðum við í dag. Það er ekki hægt að leggjast í eymd og volæði, heldur svara bara í næsta leik.“

Willum segir að hópurinn hafi í heild sýnt mikinn karakter á Kópavogsvelli í dag.

„Blikarnir eru með flott lið og mér fannst þetta hörku fótboltaleikur. Núna verðum við bara að vinna rest. Í fyrra þurftum við að vinna síðustu fimm leikina og núna þurfum við að vinna næstu þrjá. Þá ættum við að krækja í þetta Evrópusæti en við höldum samt sem áður bara áfram að taka einn leik í einu.“

Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði Blika í kvöld og lék hann í treyju númer 18. Hann er sonur þjálfara KR.

„Ég skal alveg vera heiðarlegur með það að mér fannst það vont að stjórna KR á móti honum og mjög sérstakt. Það er erfitt að lýsa þessu. Fótbolti er stór hluti af minni fjölskyldu og heimilislífinu. Öll börnin fimm eru í fótbolta og við höfum gaman að því að ræða hlutina en það var þegjandi samkomulag að ræða þennan leik ekkert.“

Verður þetta eitthvað rætt við kvöldmatarborðið í kvöld?

„Hann fær allavega að borða heima hjá sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×