Íslenski boltinn

Logi: Óútskýranlegt hrun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logi og strákarnir hans eru komnir í fallbaráttu.
Logi og strákarnir hans eru komnir í fallbaráttu. vísir/ernir
„Þetta er óútskýranlegt hrun á þremur mínútum. Við fengum á okkur mark þegar maður stendur frír nánast á marklínu, annað mark þegar það er skotið í mann og inn og svona komu þessi mörk. Með svona klaufagangi. Það er ótrúlegt að upplifa þetta eftir að hafa keyrt yfir FH-inga í upphafi leiks. Við hefðum getað verið 4-0 yfir þegar við fengum á okkur fyrsta markið,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, eftir tapið fyrir FH í Víkinni í kvöld.

Víkingar voru með öll völd á vellinum og 2-0 yfir þegar Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, skallaði hornspyrnu Stevens Lennon í netið á 37. mínútu. Þegar Pétur Guðmundsson flautaði til hálfleiks var staðan orðin 2-4, FH í vil. Ótrúlegur viðsnúningur á ekki lengri tíma.

„Eðli málsins samkvæmt er ég mjög ósáttur. Þetta er algjörlega óútskýranlegt og maður veit ekki hvað grípur um sig; hvernig menn geta koðnað niður eins og þarna gerðist,“ sagði Logi sem sá eitt og annað jákvætt við leik sinna manna í seinni hálfleik.

„Mér fannst við vera að reyna en það er kannski skiljanlegt að trúin sé ekkert rosalega mikil þegar FH er komið tveimur mörkum yfir og liðið hefur gert sig sekt um að spila illa.“

Fyrir ekki svo löngu áttu Víkingar möguleika á að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um Evrópusæti. Nú er Fossvogsliðið aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Taflan lýgur ekki. Tölurnar eru fyrir framan okkur. Það er ljóst, og ég sagði það eftir síðasta leik, að við þurfum einhver stig úr þessum leikjum sem eftir eru ef við ætlum ekki að lenda í frekari vandræðum,“ sagði Logi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×