Handbolti

Ótrúlegur endasprettur KA-manna í fyrsta heimaleiknum í 12 ár | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA-menn eru gulir og voru glaðir í gær.
KA-menn eru gulir og voru glaðir í gær. mynd/ka
KA vann ótrúlegan endurkomusigur á ÍBV U, 30-29, í 1. umferð Grill 66 deildarinnar í handbolta í gærkvöldi. Þetta var fyrsti heimaleikur KA í 12 ár og komu um 750 manns á leikinn.

Útlitið var ekki bjart fyrir KA-menn lengi vel og þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan 26-29, Eyjamönnum í vil.

Þá setti KA í fluggírinn og jafnaði metin í 29-29 þegar um hálf mínúta var til leiksloka. ÍBV fór í sókn og fékk víti þegar 12 sekúndur voru eftir.

Gabriels Martins fór á vítalínuna en Svavar Sigmundsson varði. KA-menn brunuðu í sókn og komu boltanum út í vinstra hornið á hinn 17 ára gamla Dag Gautason sem skoraði sigurmark heimamanna í þann mund sem leiktíminn rann út.

Dagur skoraði sjö mörk fyrir KA líkt og Sigþór Árni Heimisson. Friðrik Hólm Jónsson var markahæstur hjá ÍBV með sjö mörk.

Endasprett KA-manna má sjá hér að ofan.

Akureyri var einnig á ferðinni í gær og vann eins marks sigur, 27-26, á Val U.

Þá vann HK Þrótt með minnsta mun, 24-23, Stjarnan U bar sigurorð af Hvíta riddaranum, 28-27, og Mílan og Haukar U gerðu jafntefli, 21-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×