Íslenski boltinn

Andri Rúnar: Hvaða met ertu að tala um?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Rúnar er kominn með 18 mörk í Pepsi-deildinni í sumar og vantar eitt mark til þess að jafna markamet efstu deildar.
Andri Rúnar er kominn með 18 mörk í Pepsi-deildinni í sumar og vantar eitt mark til þess að jafna markamet efstu deildar. vísir/stefán
„Ég er mjög ánægður með þetta. Við spiluðum mjög vel í dag og við áttum þetta skilið,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason leikmaður Grindvíkinga þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn gegn Blikum í dag.

Andri Rúnar skoraði tvö mörk í leiknum og er þar með kominn með 18 mörk í Pepsi-deildinni. Markametið er 19 mörk og því þarf hann aðeins eitt mark í viðbót til að jafna metið þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu.

„Met? Hvaða met ertu að tala um?“ sagði Andri Rúnar brosandi þegar blaðamaður spurði hann út í möguleikann á að slá metið.

„Jú, að sjálfsögðu verðum við að reyna en ég ætla samt að spá ekki of mikið í þetta,“ bætti Andri Rúnar við áður en hann var truflaður af stuðningsmönnum Grindavíkur sem kölluðu að honum að hann hefði átt að setja þrennu í dag og jafna metið.

„Já, eins og þú heyrir er enginn að spá í þessu meti,“ sagði hann svo brosandi.

Andri Rúnar hefur lítið viljað ræða markametið en kemst eiginlega ekki hjá því lengur nú þegar hann er kominn jafn nálægt því og raun ber vitni.

„Næst er það bara KA og ég ætla ekkert að fara að breyta út af mínum vana heldur halda áfram eins og ég geri.“

Fyrra mark Andra Rúnars í dag var glæsilegt. Þá skaut hann að marki úr aukaspyrnu af 35 metra færi og boltinn söng í fjærhorninu.

„Ég ætlaði að setja hann þarna,“ sagði Andri og bætti við að aðstæðurnar hefðu ekkert haft með þetta að segja en mikill vindur og rigning var í Grindavík í dag.

„Þið sjáið það í Pepsi-mörkunum í kvöld, það var flökt á boltanum og allt. Þetta var mitt mark,“ sagði Andri Rúnar hæstánægður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×