Erlent

Katrín og Vilhjálmur eiga von á barni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur og Katrín ásamt börnunum sínum tveimur, Georg og Karlottu.
Vilhjálmur og Katrín ásamt börnunum sínum tveimur, Georg og Karlottu. Vísir/GETTY
Katrín, hertogaynja af Cambridge, og Vilhjálmur, hertoginn af Cambridge, eiga von á sínu þriðja barni. Frá þessu er greint á vef Sky News.

Í tilkynningu frá Kensington-höll segir að Elísabet Englandsdrottning og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar séu himinlifandi með fréttirnar.

Katrín og Vilhjálmur eiga fyrir tvö börn, þau Georg, fæddan í júlí 2013, og Karlottu, fædda í maí 2015.

Líkt og á fyrri meðgöngunum tveimur þjáist Katrín af hyperedemis gravidarum sem á íslensku hefur verið kallað sjúkleg morgunógleði eða sjúkleg uppköst.

Í tilkynningunni frá höllinni segir að hertogaynjan muni því ekki geta heimsótt Hornsey Road Children‘s Centre í London í dag eins og áætlað var.

Katrín og Vilhjálmur giftu sig árið 2011 en þau kynntust í St Andrews-háskólanum í Skotlandi og byrjuðu að hittast árið 2003.

Vilhjálmur er erfingi krúnunnar á eftir föður sínum, Karli. Georg prins er sá þriðji í erfðaröðinni og Karlotta sú fjórða. Þriðja barn þeirra Katrínar og Vilhjálms verður því það fimmta í röðinni.

Ekki kemur fram í tilkynningu hallarinnar hvenær er settur dagur hjá Katrínu en þegar hún var ólétt af Georg var tilkynnt um það fyrr en venjulega þar sem hertogaynjan hafði verið lögð inn á spítala vegna mikillar ógleði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×