Embætti héraðssaksóknara rannsakar nú Júlíus Vífil Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna meintra skattsvika og peningaþvættis. Hann er sagður hafa átt peninga á erlendum bankareikningum og skotið þeim undan skatti á árunum 2010 til 2015. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Þar segir að Hæstiréttur hafi úrskurðað á fimmtudaginn að Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, mætti ekki verja Júlíus Vífils þar sem til stæði að kalla hann til skýrslugjafar.
Fram kom í umfjöllun Kastljóss varðandi Panamaskjölin svokölluðu að Júlíus Vífil hefði stofnað aflandsfélag í Panama og hafa systkini hans sakað hann og bróðir hans um að hafa falið lífeyrissjóði foreldra þeirra í aflandsfélögum.
Skömmu eftir að í ljós kom að Júlíus Vífill ætti lífeyrissjóð á Panama sagði hann af sér sem borgarfulltrúi á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Hann sagði mikilvægt að farið væri yfir hagsmunaskráningu borgarstjórnar en að ekki hefði verið getið þess að skrá ætti lífeyris- og séreignasjóði. Því hefði hann ekki gert það.
Júlíus Vífill hafði farið fram á Sigurður myndi verja sig varðandi rannsókn Héraðssaksóknar en saksóknarinn neitaði því. Það var gert á grunni hljóðupptöku af sáttafundi þar sem heyrðist til Júlíusar Vífils og Sigurðar ræða um hvernig koma mætti fjármunum til systkina hans svo ekki þyrfti að greiða fulla skatta.