Það skilyrði er sett að gámabyggðirnar verði tímabundnar og reistar á svæði þar sem engar áætlanir eru uppi um að þróa frekari byggð. Þá er einnig sett skilyrði fyrir því að hægt verði að flytja gámana á brott þegar landsvæðið sem nýtt verður undir þá verður skipulagt undir byggð.
„Fyrstu umsókninni hefur verið skilað inn. Ef allt er eins og það á að vera munum við samþykkja hana og þá verður hægt að byggja. Þetta mun taka þrjár til fjórar vikur ef umsóknin uppfyllir öll skilyrði,“ segir Morten Kabell, borgarstjóri umhverfis- og tæknimála í samtali við Politiken.

Vill reisa tvö þúsund íbúðir fyrir 2020
Kallað hefur verið eftir því að Kabell gefi grænt ljós á slíkar framkvæmdir en ný skipulagslög heimila að reistar séu tímabundin íbúðarhúsnæði á svæðum þar sem ekki er fyrirhugað að þróa byggð.Frederick Noltenius Busk, stofnandi CPH Village, er einn þeirra sem hyggst reisa gámaíbúðir á þeim svæðum sem það er heimilt. Hann segist geta byggt tvö þúsund slíkar íbúðir fyrir árslok 2020.
Horft er hýru auga til Refshale-eyju þar sem áður var mikið iðnaðarsvæði. Er reiknað með að 15-20 íbúar geti flutt inn fyrir 1. nóvember og snemma á næsta ári verði allt að 175 gámaíbúðir komnar í notkun.
Busk reiknar með að hámarksleiga verði um fjögur þúsund danskar krónur á mánuði, um 70 þúsund íslenskrar krónur. Eldhús verður í hverri íbúð en baðherbergi verður deilt með nágrönnunum.
Húsnæðisvandi ungra stúdenta í Kaupmannahöfn er töluverður. Talið er að leigan á opnum leigumarkaði þar hafi hækkað um 51 prósent á árunum 2010 til 2016. Er vonast til þess að gámabyggðirnar geti slegið á þann vanda.