Íslenski boltinn

Baldur Sig: Titillinn ennþá markmiðið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
„Það er náttúrulega mikið í húfi fyrir okkur. Við erum ennþá í toppbaráttu og getum ennþá náð þessu fyrsta sæti tölfræðilega, þó að Valsmenn séu í bestu stöðunni,“ sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson fyrr í dag á blaðamannafundi KSÍ.

Pepsi deild karla fer aftur af stað um helgina eftir landsleikjahlé. Stjarnan er í öðru sæti deildarinnar með 30 stig, 7 stigum á eftir toppliði Vals þegar fimm umferðir eru eftir.

„Við höfum verið slakir í markmiðasetningu í sumar. Það sem við gáfum út var að við ætluðum að vinna titla og það hefur ekki komið titill ennþá í hús. Það er einn eftir og á meðan það er séns þá er það ennnþá markmiðið,“ sagði Baldur, spurður út í hver markmið Stjörnunnar væru.

„Svo er lágmarkskrafa að ná evrópusæti. við erum í öðru sæti eins og staðan er, með smá forskot á þessi lið fyrir neðan eins og KR og FH og fleiri. þannig að það er mikið í húfi.“

Stjarnan fer í Fossvoginn á sunnudaginn og mætir heimamönnum í Víking Reykjavík í leik sem Baldur segir vera gríðarlega mikilvægan.

„Við vitum að það verður erfitt verkefni í Víkinni á sunnudaginn. Við töpuðum fyrir þeim í fyrri umferðinni á heimavelli. Þeir eru sprækir og Logi og Bjarni búnir að gera góða hluti með þá síðan að þeir tóku við.“

Viðtalið í heildina má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×