Erlent

Yfirgefa eyjuna Barbuda fyrir komu Jose

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að um þriðjungur bygginga á Barbuda séu eyðilagðar.
Talið er að um þriðjungur bygginga á Barbuda séu eyðilagðar. Vísir/AFP
Yfirvöld eyjunnar Barbuda hafa skipað öllum 1.800 íbúum eyjunnar að yfirgefa hana áður en fellibylurinn Jose fer fram hjá henni. Ekki er útlit fyrir að fellibylurinn, sem er fjórða stigs, fari beint yfir eyjuna en hann mun fara skammt frá henni.

Nú þegar er búið að flytja hundruð manna frá eyjunni.

Einungis nokkrir dagar eru frá því að fellibylurinn Irma olli gífurlegum skaða á eyjunni, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar. Talið er að um þriðjungur allra bygginga á eyjunni vera í rúst. Íbúar segjast aldrei hafa upplifað annað eins.

Ein kona sem ræddi við blaðamann fréttaveitunnar segist hafa skýlt sér ásamt vini sínum í fataskáp eftir að Irma reif þakið af húsi hennar.

„Ég hef aldrei verið jafn hrædd á ævinni. Ég og Jackie héldum utan um hvora aðra og vorum í raun að kveðja,“ sagði Sira Berzas. Þegar auga fellibylsins fór yfir eyjuna hlupu þær út á nærfötunum og fundu lögregluþjóna á ferðinni sem fluttu þær í öruggara húsnæði. Heimili hennar og veitingastaður eyðilögðust.

Þær gleymdu þó að taka kettlinginn Houdini með sér, en hann stóð undir nafni og lifði óveðrið af.

Ljóst er að íbúar eru ekki allir sáttir við að þurfa að flýja frá eyjunni. Margir verða fluttir til Antigua, en þau segjast ekki vita hvert þau eigi að fara þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×