Íslenski boltinn

Stjarnan með yfirlýsingu varðandi ásakanir Doumbia

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kassim Doumbia í leik með FH.
Kassim Doumbia í leik með FH. Vísir/Andri Marinó
Knattspyrnudeild Stjörnunnar hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Kassim Doumbia eftir leik Stjörnunnar og FH á sunnudaginn. Doumbia sagðist þá hafa orðið fyrir kynþáttaníði frá stuðningsmönnum Stjörnunnar.

Sjá einnig: Flösku kastað í Kassim: Ég varð fyrir kynþáttafordómum

Í yfirlýsingunni fer Stjarnan fram á að KSÍ rannsaki ásakanirnar til hlítar. 

Þar segir: „Stjórn knattspyrnudeildar telur ummæli leikmannsins mjög alvarleg reynist þau sannleikanum samkvæm og ekki síður reynist þau staðlausir stafir, enda innihalda þau ásökun um vítaverða og mögulega refsiverða háttsemi. Undir slíkum ávirðingum geta fjölmargir stuðningsmenn Stjörnunnar ekki setið. Stjórnin telur því nauðsynlegt að KSÍ láti einskis ófreistað til þess að staðreyna sannleiksgildi ásakana leikmannsins og þá hver beri ábyrgð á meintri háttsemi, en hreinsi ella stuðningsmenn félagsins af þeim sökum sem á þá eru bornar. Í þessu samhengi vill stjórn knattspyrnudeildar undirstrika að ásökunum leikmannsins hefur verið vísað á bug af þeim starfsmönnum, sjálfboðaliðum og leikmönnum félagsins sem viðstaddir voru umræddan leik.“

Einnig var sérstaklega tekið fram að stjórn knattspyrnudeildarinnar telur kynþáttafordóma undir engum kringumstæðum ásættanlega og fordæmir slíka framkomu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×